141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þeim orðaskiptum sem hér hafa átt sér stað vildi ég biðja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að rifja upp hvaða aðkomu eða útspil Framsóknarflokkurinn átti nákvæmlega um málinu fyrr á þessum vetri. Hv. þingmaður vísaði til þess að Framsóknarflokkurinn hefði komið með útspil eða tilboð, eða hvernig við getum orðað það, í janúar varðandi það að tilteknir þættir stjórnarskrárinnar yrðu endurskoðaðir og tilteknum atriðum bætt við.

Raunar get ég getið þess að sjálfstæðismenn nefndu hið sama á a.m.k. tveimur fundum með fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í lok janúar og byrjun febrúar. Niðurstaðan var sú eftir að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur höfðu látið slík sjónarmið í ljós að stjórnarflokkarnir lýstu því yfir ítrekað, bæði hér í þingsal, á nefndafundum og annars staðar, að halda ætti að áfram með málið í heild. Þó lá fyrir á þessu stigi máls, í lok janúar, byrjun febrúar, að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur töldu rétt að setjast niður og reyna að ná samstöðu um orðalag tiltekinna breytinga á stjórnarskránni sem kláraðar yrðu fyrir kosningar í vor. Ríkisstjórnarflokkarnir keyrðu af einhverjum ástæðum áfram með málið, ég veit ekki hvað réð því, kannski hugsanlega sú óskhyggja að unnt yrði að klára málið í heild fyrir kosningar í vor. Það var raunverulega ekki fyrr en ríkisstjórnarflokkarnir voru komnir í fullkomið óefni og langt á haf út með málið sem þeir fóru að henda inn í þingið tillögum um breytingar á breytingarákvæði, síðan reyndar auðlindaákvæði sem breytingartillögu við frumvarpið sem flutt var um breytingarákvæðið. (Forseti hringir.) Auðlindaákvæðið kom ekki inn í frumvarp formannanna, heldur er það síðbúin viðbót ef svo má segja og er ætlast til þess að það mál verði klárað hér (Forseti hringir.) á einhverjum næturfundum á örfáum sólarhringum og raunar eftir (Forseti hringir.) að þingi átti að ljúka, sem er auðvitað mjög sérstakt.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna að þeir virði ræðutíma.)