141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Það var ágætissamlíking sem kom fram í máli hans að vísa í að málið sé komið á haf út og þessir ríkisstjórnarflokkar sjá náttúrlega ekki í land. Það eru óskaplega skrýtnar björgunaraðgerðir sem þau telja sig vera í gagnvart þessu máli. Í janúar var nefnilega tímalegur grundvöllur til þess að setjast niður með þessum flokkum og stjórnarandstöðunni og gera þær breytingar á stjórnarskránni sem gera þarf, en þá var enginn vilji til þess. Ég er farin að halda það nú í seinni tíð að flokkarnir hafi haldið að þeir gætu gengið út í kosningabaráttuna með nýja stjórnarskrá, veifað henni á torgum og sagt: Sko, við gátum fært þjóðinni nýja stjórnarskrá, alveg sama hvað það kostaði.

Virðulegi forseti. Það er alveg svakalega skrýtið að horfa upp á það og hvernig þrjóskan getur leikið þingmenn, ráðherra sem og aðra.

Þarna var ekki hægt að mati ríkisstjórnarflokkanna að fara með málið í gegnum þingið, í sáttaferli, eins og við buðum svo sannarlega, okkur sagt að málið lægi allt undir. Þess vegna er afar skrýtið að sjá þær krampakenndu björgunartilraunir sem fram fara núna hjá ríkisstjórnarflokkunum. Búið er að henda út stóra frumvarpinu og setja einhver breytingarákvæði á stjórnarskránni inn í þingið þannig að vitleysan geti haldið áfram á næsta kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Ég vil skilja þessa vitleysu eftir, þetta vinstra rugl sem komið er af stað í þinginu með þessum breytingartillögum. Hér er komið frumvarp að stjórnarskrá sem breytingartillaga. Slítum (Forseti hringir.) þingi og kjósum nýtt þing. Tilvonandi þingmenn taka til við að endurskoða stjórnarskrána, þá kafla sem þarf að (Forseti hringir.) endurskoða.