141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú alveg einstaklega góð spurning. Það er skemmst frá því að segja, hafi einhver misst af því, að hér fór allt af hjörunum þegar við framsóknarmenn lögðum fram hugmyndir okkar að því hvernig auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar ætti að vera. Við bjuggum það ekki til sjálf. Við sóttum það í auðlindaskýrslu frá árinu 2000 þar sem fulltrúar allra flokka sátu og var komin sátt um að leggja til það að kæmi inn í stjórnarskrána. Vinstri grænir, þingmenn Vinstri grænna í þingsal, fóru gjörsamlega af hjörum og þá sérstaklega hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Björn Valur Gíslason. Framsóknarflokkurinn átti sko ekki að fá sitt auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá því að Vinstri grænir ætluðu að eiga heiðurinn að því. Svona er umræðan búin að vera hjá þessum ágætu ríkisstjórnarflokkum.

Það sem fór mest fyrir brjóstið á hv. þingmönnum var nýtingarrétturinn sem fram kom í ákvæðinu. Ég var á merkum fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær þar sem fram kom að nýtingarréttur væri það sem við þyrftum fyrst og fremst að vernda (Forseti hringir.) í stjórnarskrárákvæði, vegna þess að það er nýtingarrétturinn sem ESB er að sækjast í en ekki eiginlegt eignarhald yfir auðlindunum, svo það komi fram hér.