141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég verð að minnast á í upphafi andsvars míns að algjörlega er orðið ljóst að Alþingi verður að styrkja sig faglega. Á næsta kjörtímabili má ekki bíða lengur með að stofna lagaskrifstofu Alþingis eða setja á stofn einhvers konar lagaráð vegna þess að málin eru komin í svo mikið óefni.

Við ræðum stjórnarskrána og inn í þingið koma óþingtækar tillögur, tillögur sem eru ekki þingtækar og standast enga lagasetningu né vinnu við frumvarpsgerð, hvað þá heldur þegar stjórnarskráin sjálf er í húfi.

Til að benda á eitthvað af mörgu í máli þingmannsins ætla ég að taka eitt sérstaklega fyrir. Hann talaði um að til þess að ljúka málinu hér þyrfti að byggja brú yfir á næsta þing svo hægt verði að halda áfram með stjórnarskrármálið. Það lýsir svo miklum misskilningi ef ekki vankunnáttu á stjórnskipunarrétti yfir höfuð vegna þess að ef við túlkum stjórnarskrána ítarlega, sem okkur ber að gera sem og að fara eftir henni, er þessu þingi ekki heimilt að binda hendur næsta þings, hvorki með yfirlýsingum um breytingar á stjórnarskrá né nokkru öðru. Þess vegna getur slíkt aldrei verið nema einhvers konar yfirlýsing, viljayfirlýsing sem er að mínu mati ekki bundin í þingskjöl. Alþingismenn fara með löggjafarvald. Alþingismenn fara með stjórnskipunarvald. Þingmaður fer með löggjafarvald en það er bundið við eitt kjörtímabil, stjórnskipunarvald er tvö kjörtímabil með nýjum þingmönnum sem koma inn á nýtt þing, þ.e. ef breytingar verða á þingmannafjölda. Tvö þing fara saman með stjórnskipunarvaldið. Fyrra þingið getur ekki bundið næsta þing.