141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna eru ég og hv. þingmaður einfaldlega ekki sammála sem er í sjálfu sér allt í lagi. Ég skil afstöðu þingmannsins ágætlega en ég tel að við séum í rauninni komin á þann tímapunkt núna að langaffarasælast væri að ljúka umræðunni um þetta frumvarp og þessa breytingartillögu — ég ítreka þó það sem ég sagði um breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur — ég tel affarasælast að við ljúkum umræðunni um frumvarpið og breytingartillöguna með atkvæðagreiðslu í þinginu þannig að hv. þingmenn fái tækifæri til að sýna afstöðu sína til þeirra með beinum hætti. Það tel ég mikilvægt.

Ég tel að meiri hluti sé fyrir málinu í þinginu. Ég tel afar mikilvægt og lýðræðislega þarft að sá vilji fái að koma fram í atkvæðagreiðslu og að við getum síðan farið út í vorið og kosningabaráttuna með það veganesti sem við búum okkur sjálf í því máli.