141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að koma hér aðeins of seint, lokað var inn í hliðarsalinn þannig að ég heyrði ekki að hv. þm. Illugi Gunnarsson hefði lokið máli sínu. Ég þakka honum kærlega fyrir ræðu hans og þakka honum fyrir að vekja athygli á þeim málum sem hann fór yfir varðandi þann fáránleika sem er farið að einkenna þetta mál þegar lagðar eru fram breytingartillögur að breytingartillögum og að mál fái ekki þær þrjár umræður sem kveðið er á um í lögum og sjálf stjórnarskráin liggur undir.

Ég held nefnilega að tímabært sé að við förum að ræða það í þinginu af fullri alvöru að strax á næsta kjörtímabili verði komið skikki á störf þingsins og að þær tillögur, frumvörp, þingsályktunartillögur og annað það sem er lagt fram í þingskjölum standist kröfur um lagasetningu. Það verður ekki gert nema að stofna einhvers konar lagaskrifstofu eða lagaráð við þingið sem hefur það hlutverk að sía út öll þau mál sem eiga ekki erindi í þingsal. Svipað fyrirkomulag er starfrækt á öllum Norðurlöndunum en hér er enn ekki búið að hrinda því í framkvæmd þrátt fyrir að hugmyndin hafi komið fyrst fram þegar EES-samningurinn var til umræðu í kringum 1992, 1993 og 1994. Þá lagði hv. þáverandi þingmaður, Páll Pétursson, til að stofnað yrði lagaráð við þingið. Það var vegna þess að umdeilt var hvort EES-samningurinn mundi brjóta gegn stjórnarskrá.

Það er orðið tímabært að við tökum þá umræðu af fullum þunga og af mikilli alvöru. Það sjá það náttúrlega allir í hendi sér að þetta fyrirkomulag kemur ekki til með að ganga hér áfram, þ.e. ef við ætlum að standa undir nafni sem löggjafi í landinu.

Miðað við það sem kom fram í máli hv. þingmanns langar mig til að spyrja: Sér hann einhver (Forseti hringir.) málalok í þessu vandræðamáli og þeim útafakstri sem ríkisstjórnin er búin að (Forseti hringir.) koma sér í?