141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:23]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þann þátt sem við hv. þingmaður höfum verið að ræða þá er það svo að annaðhvort, mundi ég telja, líta menn svo á að tillaga hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og fleiri sé tæk eða ekki og þá beri að vísa henni frá. Ef menn telja að hún sé tæk þarf auðvitað að ræða hana vel. Þá þurfum við að ræða frumvarpið eins og það lítur út frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni og fleirum, síðan þurfum við að fara í gegnum alla umræðuna um tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Ég minni enn og aftur á yfirlýsingar hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að efnisleg rök væru fyrir því að sú umræða ætti töluvert langt eftir, ásamt því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar. Þar að auki þurfum við síðan að ræða auðlindaákvæðið eins og það kemur fram hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, því það er eðlisólíkt því hugtaki, þeirri tillögu sem kemur fram hjá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur

Virðulegi forseti. Þetta getur augljóslega ekki gengið upp. Það er algjörlega útilokað. Ef við ættum að gera þetta þannig að hægt sé að ganga hér til atkvæða svo að einhver sómi sé að og að þetta sé eðlilegt þá þurfum við að vera með þetta þing starfandi lengur en til kosninga, en það er náttúrlega er ekki leyfilegt, vegna þess að það mikil umræða er um þetta og það er ekki bara sá sem hér stendur eða sjálfstæðismenn sem telja það, ég vísa enn og aftur til orða hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, hvað það varðar.

Hvað er þá til ráða? Það er von að ég hafi skotið mér aðeins undan þessu í fyrra svari mínu af því að ég var nú að velta fyrir mér hvernig ég ætti að svara þessu. Ég vildi óska að ég gæti gefið þingmanninum einfalt svar hvað það varðar, en ég tel að þessi mál verði bara að fara frá. Ég tel að þau hafi gjörsamlega og algjörlega siglt í strand. Ég sagði það á mánudaginn strax þegar menn sáu þessa stöðu að forseti ætti að stöðva umræðuna af því að þetta leiðir ekki neitt. Rökin fyrir því að leggja fram tillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar voru þau að — ef það var mat tillöguflytjenda að umræðurnar um stjórnarskrárbreytingarnar mundu ekki klárast, það væri ekki tími, þá sjá menn auðvitað hversu (Forseti hringir.) gjörsamlega vonlaust þetta verkefni er.