141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hótar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins málþófi um stjórnarskrána fram að kosningum ef marka má orð hans í andsvörum. Það er auðvitað miður að það sé þannig komið. Út af fyrir sig er hægt að taka undir með hv. þingmanni um að Alþingi er enginn sómi að þeirri stöðu og þeirri flækju sem hér er uppi. Nú greinir okkur á um efni sjálfra heildartillagna stjórnlagaráðsins sem eru með ágætum og hafa fengið mikinn tíma í undirbúningi og umræðu og vinnu allri miðað við það sem gengur og gerist í grannlöndum okkar. En ég get út af fyrir sig haft skilning á því að hv. þingmaður og ýmsir aðrir hafi svo miklar athugasemdir við það mál að þeir telji að ræða þurfi það meira og ítarlegar en við höfum færi á hér.

Hins vegar er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki nauðsynlegur hluti af því að leysa þá flækju og gera þessari stofnun hér, Alþingi Íslendinga, og stjórnarskrá lýðveldisins einhvern þann sóma sem boðlegur er að stjórnmálaflokkarnir við lok þessa kjörtímabils og eftir 13 ára samræður, nefndir og lögfræðiúttektir og endalaus ræðuhöld í þinginu, geti komið sér saman um auðlindaákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins sem hægt sé að lögfesta og staðfesta á næsta kjörtímabili. Er það ekki alveg lágmarksárangur sem verði að ætlast til af samráði stjórnmálaflokka í 13 ár samfleytt um afmarkað og skýrt atriði sem allir í orði kveðnu segjast styðja, að stjórnmálaflokkarnir séu í færum til þess að ljúka þeirri umræðu á 13 árum? Og hvort það sé ekki einboðið að lausnin á þessari flækju núna og það að gera Alþingi þann sóma sem við vorum kjörin til að varðveita felist í því að menn taki hér (Forseti hringir.) höndum saman um að setja í sameiningu nýtt auðlindaákvæði en fresta vinnunni að öðru leyti fram á næsta kjörtímabil.