141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég spáði hér í fyrstu ræðu minni um þetta mál er held ég að rætast, að með flutningi breytingartillögunnar um auðlindaákvæðið takist sennilega að eyðileggja málið. Það er mín skoðun.

Í raun og veru er stórmerkilegt að breytingartillaga skuli koma frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að hún skuli vera 1. flutningsmaður, og reyndar er mjög merkilegt að þingflokksformaður Vinstri grænna skuli einnig flytja breytingartillögu við það frumvarp sem um ræðir. Ég stend á því fastar en fótunum að það verði til þess að skemma málið í heild sinni. Af hverju skyldi ég segja þetta? Það er vegna þess að það blasir við öllum sem vilja skilja og tala um hlutina eins og þeir eru hér í þingsal þessa dagana, það er ekkert flóknara. Það er auðvitað vitað mál.

Þegar menn koma hér fram og segja að þetta sé eðlileg niðurstaða eftir 13 ára umræðu og allt blaðrið í kringum það þá er mjög merkilegt að hv. þingmenn meiri hlutans skyldu ekki hafa haft rænu á að leggja breytingartillögu fram áður en starfsáætlun þingsins lauk, að koma með þetta inn í þingið eftir að henni lauk er alveg hreint með ólíkindum. Ég held því fram að þetta sé bara pólitískt flopp og ekkert annað. Innst inni vilja sumir hverjir, ætla ég að leyfa mér að segja, hafa deilur um eitthvert auðlindaákvæði á lokadögum þingsins til þess að geta nýtt sér það prívat og persónulega í kosningabaráttunni. Ég óttast að það sé nefnilega þannig.

Ég skora á hv. þingmenn að koma hér og nálgast verkefnið með þeim markmiðum sem upp voru sett. Hver var grunnhugmyndin hjá flutningsmönnum þessa frumvarps? Reyndar átti þingsályktunartillagan sem sömu hv. þingmenn fluttu, hv. þm. Árni Páll Árnason, hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, að koma málinu í einhvern annan farveg. Hugsunin var að mínu mati skynsamleg, að reyna að koma sátt í málið, því að sumir hv. þingmenn voru það brjálaðir að þeir töldu eðlilegt og skynsamlegt að taka heildarendurskoðun á stjórnarskránni núna fyrir með þessum breytingum í því tímahraki sem við erum í. Ég held að hv. þingmenn sem fluttu þessa tillögu hafi séð hversu mikið brjálæði það var í raun og því reynt að stoppa vitleysuna.

Mér finnst frumvarpið sem þessir hv. þingmenn fluttu og þingsályktunartillagan vera skref í rétta átt og í raun og veru það skref sem ég hef meðal annars kallað eftir, þ.e. að breyta vinnunni við endurskoðunina á stjórnarskránni. Ef við hefðum haldið okkur þar og tekið þetta mál með eðlilegri umræðu um það sem um er vélað hér og fjallað í þessu máli held ég að við værum stödd á öðrum stað í dag. Þá hefðum við tekið umræðuna um það hvort þröskuldarnir væru of háir eða lágir, hvort heldur sem er innan þings eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sumir hv. þingmenn segja eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hér áðan: Það er búið að ræða málið hér í 13 ár, nú er kominn tími til að taka ákvörðun. Hér er fullt af tillögum á floti, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á. Það er annars vegar það sem kemur frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, það er breytingarákvæði frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur og síðan er einhver texti á ferð sem hv. þm. Árni Páll Árnason sendi til forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna til þess að viðra þá hugmynd hvort flötur væri á að koma því efni inn til viðbótar. Þetta fannst mér vera virðingarvert af hv. þm. Árna Páli Árnasyni. En svo koma hv. þingmenn með breytingartillögur til þess að eyðileggja málið fyrir eigin formönnum. Ég held að það væri nær fyrir hv. þingmenn, sem voga sér að tala um að hér sé hafið eitthvert málþóf, að byrja á því að reyna að ná sáttum innan eigin raða. Þetta virkar því miður þannig á mig, virðulegi forseti, að innan stjórnarflokkanna sé verið að róa í margar áttir. Það kom reyndar líka fram í máli hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, þegar ég fór í andsvar við hann, að hann var aldeilis ekki sáttur og hafði áttað sig á því að málið nyti ekki þess stuðnings sem hann taldi æskilegt innan stjórnarflokkanna til að geta klárað málið með eðlilegum hætti. Það liggur skýrt fyrir.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að hlusta á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals hér á eftir því að hann er með hugmynd til viðbótar sem gæti höggvið á þann hnút hvernig við getum nálgast það verkefni sem frumvarpið gengur út á. Frumvarp forustumanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar fjallar ekki um að taka einstaka hluta af breytingunum frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það fjallar bara um að koma málinu í eðlilegan farveg, nýta þá vinnu og koma því yfir á næsta kjörtímabil. Þingsályktunartillagan sem fylgir með frumvarpinu, sem er næsta mál, er hálfpartinn órjúfanlegur hluti af því.

Ég spyr hv. þingmenn: Er mismunandi mat á því hverju menn telja mikilvægt að breyta strax? Sumir hv. þingmenn og sérstaklega flutningsmenn vitlausu tillögunnar um auðlindaákvæðið telja að það sé mikilvægast. Síðan vilja aðrir, og það hefur komið fram hér í ræðum, taka ákveðna hluta úr stjórnskipunarkaflanum, ákveðna hluta út úr mannréttindakaflanum og þar fram eftir götunum. En frumvarpið sem hér um ræðir fjallar ekkert um að taka einstakar tillögur. Hvers vegna er tortryggnin svona mikil? Hún er augljós. Það er vegna þess að þegar málið fer í 3. umr. geta hv. stjórnarliðar ekkert lofað því að ekki komi fleiri breytingartillögur um hinar og þessar greinar í stjórnarskránni. Það stendur jafnvel til að koma nánast allri stjórnarskránni inn með breytingartillögu við þetta frumvarp. Það er slæmt. Þessu eiga hv. stjórnarliðar sök á þegar þeir flytja breytingartillögur. Ef mönnum hefði verið einhver alvara og stjórnarþingmenn hefðu viljað bakka upp formenn sína í málinu hefði þeim verið það skylt að mínu mati að flytja enga breytingartillögu við málið heldur segja mjög skýrt hér í ræðustól að málið yrði klárað með þeim hætti sem hér er lagt upp með í staðinn fyrir að hengja breytingartillögur við það. Það hefði verið skynsamlegast, þá hefði ekki verið þessi tortryggni. Það er mjög dapurlegt að þetta skuli vera staðan.

Síðan koma hv. stjórnarliðar, sem tala fyrir breytingartillögunni á auðlindaákvæðinu, og segja: Það eru engar deilur um það að menn vilja setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Hvenær hefur þessi tillaga verið efnislega rædd hér? Tillagan kemur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og var aldrei efnislega rædd í þeirri nefnd. Hvernig dettur mönnum í hug að koma með breytingartillögu sem hefur ekki fengið umfjöllun í nefndinni og ætla að taka umræðu um hana hér í ræðustól? Það er vísasti vegurinn til að eyðileggja málið. Það er að minnsta kosti mín skoðun og mín reynsla á þeim fjórum árum sem ég hef setið hér.

Ég fékk eiginlega létt áfall eftir að ég sá breytingartillöguna. Þess vegna sagði ég áðan: Ég held að sumir ætli að nota sér þetta í einhverjum pólitískum loddaraskap í kosningabaráttunni.

Þegar ég las nefndarálitið frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fjallaði um frumvarpið, fannst mér það vera mjög athyglisvert. Mér fannst reyndar mjög áhugavert að fara yfir það og þegar sú krafa var gerð að þröskuldur yrði settur var vinna nefndarinnar mjög fín. Lagt er til að þröskuldurinn í þinginu verði hækkaður úr 60 í 66%, þ.e. að í staðinn fyrir að 3/5 hlutar þingmanna þurfi að samþykkja þurfi 2/3 hluta . Settur er hærri þröskuldur. Síðan snýr umfjöllunin í nefndinni greinilega að því hvað þurfi að vera mikið fylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillagan um að það þurfi einungis 25% kosningabærra manna að samþykkja tillöguna sló mig í byrjun. Síðan hlustaði ég á hv. stjórnarliða færa rök fyrir því. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem var með fyrirvara á nefndarálitinu gagnvart þessum hluta málsins taldi það ekki æskilegt og gerði grein fyrir því. Hún vildi jafnvel ekki hafa neina þröskulda og sagði að þessi væri of hár. Þegar ég fór að hugsa málið var augljóst að ég hafði gert mér of háar hugmyndir um það hversu hár þröskuldurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði að vera miðað við að hann er frekar hár í þinginu. Ef við ætlum að feta okkur inn á nýjar brautir, þ.e. að leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskrána, sem hún gerir ekki í dag, þá ætti að gera það í mikilli sátt í þinginu, eins og reynslan hefur reyndar sýnt í gegnum tíðina. Það hefur ekki verið farið í breytingar á stjórnarskránni nema í mikilli sátt. Kannski var hugmynd mín um svo háan þröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu ekki raunhæf og sanngjörn. Ég keypti því rök hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Síðan fannst mér líka mjög áhugaverð breytingin sem gerð var á þingsályktunartillögunni, sem er auðvitað órjúfanlegur þáttur af þessu ferli, þ.e. því hvernig megi stýra umræðunni í ferli inn á næsta kjörtímabil. Það er mjög fín ábending að Alþingi skipi sérstaklega formann og síðan sé það gert eins og þar kemur fram, en ég ætla ekki að fara nánar út í það fyrr en þingsályktunartillagan kemur á dagskrá. Mér fannst þetta áhugaverðar og fínar breytingar. Þess vegna fékk ég eiginlega sjokk þegar ég sá breytingartillöguna frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans um auðlindaákvæðið því að við það var strax komin tortryggni í málið.

Hvernig er staðan hér í dag? Jú, það er búið að reyna að semja um þetta og ljúka þingstörfum en það gengur ekki neitt. Á dagskrá eru nefnilega mjög mikilvæg mál. Ég ætla að hafa þau varnaðarorð, virðulegur forseti, að mörg mikilvæg mál stendur til að klára sem er kannski ekki mikill pólitískur ágreiningur um. Ég ætla að segja það hér svo að það verði gert: Þau mál geta ekki farið í gegnum þingið á nokkrum klukkutímum. Við þurfum að minnsta kosti einhverja daga. Það er klárt frá mínum bæjardyrum séð að ég tek ekki þátt í því að semja hér um stórmál sem fá nánast enga umræðu, það eru alveg hreinar línur. Það þarf nokkra daga í þau stóru mál sem á eftir að ræða, hvort heldur sem það er Landspítalinn eða atvinnuuppbyggingin á Bakka o.fl. Það er mín sýn. Eflaust telja aðrir hv. þingmenn önnur mál mikilvæg og vilja tala um þau þó að ég telji þau ekki hér upp enda sýnist sitt hverjum.

Mér finnst umræðan hér áhugaverð. Ég vil segja, virðulegur forseti, að mér hefur fundist umræðan nokkuð góð þann tíma sem hún hefur staðið yfir, þetta er annar dagurinn, að því leyti að við höfum skipst á skoðunum og erum í rökræðum. Stjórnarliðar hafa tekið þátt í umræðunni, það er mjög gott, og við skiptumst á skoðunum og ræðum hér hlutina eins og þeir liggja fyrir. En við erum alltaf dregin í dilka í umræðunni sem mér finnst ekki þurfa.

Sumir hv. þingmenn hafa gert grín og kallað það veruleikafirringu eða eitthvað álíka hjá hv. þingmönnum sem eru flutningsmenn málsins, þ.e. forustumönnum stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, að vilja kalla til þjóðfundar árið 2014, á því afmælisári, til að samþykkja nýja stjórnarskrá. Er það virkilega einhver veruleikafirring? Ég er ekkert viss um það. Ég held að það sé bara raunhæft markmið ef við snúum okkur að því að reyna að ná samstöðu. Hvers vegna þarf allt í einu að koma með þessa tillögu en ekki hinar? Af hverju mátti breytingin sem snýr að auðlindaákvæðinu ekki vera inni í því ferli? Það er auðvitað krafa um að fá svör við því af hverju svo er ekki.

Ég hef fylgst nokkuð vel með þessari umræðu og tekið þátt í henni eins og ég hef getað. Ég kallaði eftir því í fyrstu ræðu minni að hv. stjórnarliðar kæmu fram. Ég er svo tortrygginn í þessu andrúmslofti að ég hef fylgst með því hvaða hv. þingmenn segjast ekki styðja tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Ég hef verið ánægður með það þegar hv. stjórnarliðar hafa komið hingað upp, meira að segja í stutta ræðu, eins og gerðist hér fyrir matarhlé vegna þess að tíminn var ekki lengri hjá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Hann kom samt þeirri skoðun sinni mjög skýrt á framfæri að hann teldi óæskilegt að gera það þannig að það var alveg klárt hver skoðun hans var. Þetta finnst mér mjög mikilvægt.

Nú ætla ég bara að nota síðustu mínúturnar mínar til þess að fara yfir það hver mín sýn er. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi eitthvað réttar fyrir mér en aðrir. Ef menn ætla að leysa þetta mál verður í fyrsta lagi að byrja á því að kalla þessa breytingartillögu til baka. Í því felst ákveðið „steitment“. Í því felst sú yfirlýsing frá stjórnarmeirihlutanum að ekki standi til og ekki verði fluttar fleiri breytingartillögur við þetta mál nema þær snúi að efni málsins, hvort þröskuldarnir verði hækkaðir eða lækkaðir, bara að slíkum hlutum málsins, engu öðru. Það er fyrsta skrefið, held ég. Síðan getum við tekið rökræðuna um það. Ég held að það sé mjög stutt á milli manna. Ég hvet hv. þingmenn til þess að hlusta á hv. þm. Pétur Blöndal hér á eftir sem kemur með mjög áhugaverða hugmynd sem hann sagði mér frá í morgun, sem ætti að geta sætt sjónarmið margra sem koma úr ólíkum áttum. Þá getum við farið að mínu viti að afgreiða málið og sett það í þann farveg sem formenn stjórnarflokkanna, hv. þm. Árni Páll Árnason, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, lögðu upp með.

Ef einhver meining hefði verið á bak við það hjá forustumönnum stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar að fara með málið í annan farveg hefði auðlindaákvæðið verið í frumvarpinu í upphafi en því ekki verið laumað inn sem breytingartillögu. Hv. þingmenn í stjórnarflokkunum verða að fara að róa í sömu átt, annars getum við ekki náð niðurstöðu um málið. Það er alveg klárt að mínu viti. Þegar þeir gera það getum við farið að afgreiða málið, öðruvísi ekki.

Ég hef talað fyrir því í þingflokki mínum og við hvern sem er að ég vil ná sátt og lausn á málinu. En sú rödd mun ekki heyrast frekar en hjá öðrum sem vilja það á meðan menn búa við það umhverfi sem hér er sem skapað er af stjórnarmeirihlutanum. Það er engin vissa um að ekki komi fleiri breytingartillögur um ákveðna kafla sem sumir hv. þingmenn telja jafnmikilvæga og þennan. Ég geri engar athugasemdir við það. Sumum finnst mikilvægara að fá inn ákvæði af þeim tillögum sem koma frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og snúa t.d. að mannréttindakaflanum. Þeir telja það mun mikilvægara en það sem snýr að auðlindakaflanum. Það er því engin trygging fyrir því hvernig farið verður með þær tillögur.

Í fyrsta lagi verður að byggja upp traust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu ef klára á málið af einhverju viti. Það sem mér hefur líka fundist koma út úr þessari umræðu, ég ætla bara að nota hér síðustu sekúndurnar í það, er nefnilega dálítið athyglisvert og snýr að því hvort það sé betri og réttari leið til þess að breyta stjórnarskránni að fara með breytingarnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í staðinn fyrir að vera að gera það alltaf í lok þings, rjúfa þing og leggja síðan málið fyrir næsta þing til samþykktar. Það er umhugsunarvert. Ég hef staldrað dálítið við þá hugsun að rétta leiðin sé kannski að breyta fyrirkomulaginu þó að þetta sé bráðabirgðaákvæði hér. Það mun kannski þróast ef mönnum gengur vel að breyta hlutunum. Þá munu menn segja: Hvers vegna fórum við ekki enn fyrr í þessa vegferð?

Við komumst ekki þangað miðað við umræðuna, virðulegi forseti. Við höldum áfram og stefnum beint upp í kletta og þó að við sjáum þá breytum við ekki stefnunni. Við siglum bara áfram á fullri ferð og segjum: Þetta hlýtur að reddast einhvern veginn. Á meðan eru mörg önnur mál hér mjög brýn sem okkur væri nær að reyna að klára og koma þessu í eðlilegan sáttafarveg og þá verða allir að líta í eigin barm.