141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var hörkuræða og athyglisverð um mjög margt. Í fyrsta lagi tel ég engu máli skipta þótt við séum komin fram yfir starfsáætlun, það er nægur tími. Þing hefur oft fundað nær kosningum en þetta og við höfum nægan tíma til að ljúka málinu.

Hvað varðar að breytingartillagan um auðlindaákvæðið hafi skemmt málið er ég alls ekki sammála því. Breytingartillögur geta komið fram og svo er spurning um hvað menn ná samkomulagi að klára. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, minni hlutans, hafa fram að þessu, ef ég hef skilið það rétt, líka hafnað öllum sáttaumleitunum um breytingartillöguna og þingsályktunartillöguna. Ef eitthvað eyðileggur málið er það það. Það var förin sem formenn stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar fóru í, að ná sátt og samkomulagi um breytingarákvæðið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að út af fyrir sig er mikill áfangi að ákveða að stjórnarskránni verði í framtíðinni breytt svona en ekki með gamla laginu, það er miklu betri aðferð að fara með það beint í þjóðaratkvæði. Að því leytinu, eins og hv. þingmaður talaði, er svo sannarlega lausn í sjónmáli við að ná saman um það sem formennirnir fóru af stað með, að breyta breytingarákvæðinu og samþykkja þingsályktunartillöguna og síðan auðvitað rökræða menn áfram um hvort við náum niðurstöðu um önnur atriði. Það er engin tilviljun að auðlindaákvæðið kemur inn sem breytingartillaga í ljósi ferlisins alls.

Auðlindaákvæði stjórnlagaráðs var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. 74% kjósenda sögðu já þegar spurt var hvort náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu ættu að vera þjóðareign. Það er afdráttarlaus niðurstaða í máli sem hefur verið rökrætt árum saman í ýmsum nefndum og oft í þingsölum. Ég held að þegar orðalagið er skoðað á milli tillagnanna síðustu 13 árin eða svo hafi ekki svo mikið borið þar á milli og, (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður sagði, vilja allir auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við eigum alveg að geta náð saman um það eins og breytingarákvæðið sem við getum svo sannarlega náð saman um.