141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að grundvöllur er fyrir því að ná saman um mál en til þess þurfa menn að vera sammála um forsendurnar. Í andsvari hv. þingmanns við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom enn og aftur fram sá misskilningur sem ég tel vera uppi og vera grundvallarmun, að þegar 74% þjóðarinnar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvæði ætti að vera um að náttúruauðlindir í eigu þjóðar skyldu lýstar þjóðareign voru 74% þjóðarinnar ekki að taka undir tillöguna sem liggur fyrir í tillögum stjórnlagaráðs, þær áttu að vera til grundvallar. Það var ekki verið að greiða atkvæði um þá tillögu.

Þess vegna hafa komið fjórar eða fimm tillögur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ein tillaga frá formanni Samfylkingarinnar og síðan önnur frá formanni þingflokks Samfylkingarinnar. Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað hefur það valdið ringulreið í umræðunni, ef menn ætla að reyna að ná saman um þetta ákvæði, en einnig skapað gríðarlega tortryggni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að kannski er skortur á trausti sem veldur því að menn ná ekki saman, m.a. um hvort ekki dúkki upp hinar og þessar tillögur í 3. umr. sem síðan þyrftu þá eina umræðu til viðbótar, samanber þau sjónarmið sem hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur komið fram með.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í er hvort það sé hans skoðun að til þess að menn nái saman um þetta þyrfti í raun og veru að draga breytingartillögurnar við breytingarákvæðið til baka og að menn einsettu sér að ná samstöðu um breytingarákvæðið eingöngu og tækju allar aðrar tillögur út af borðinu.