141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi einmitt ræðu hv. þingmanns þannig að hann teldi skynsamlegt að gera breytingar á 79. gr. og fara aðrar leiðir. Ég hef lýst efasemdum um þá leið og vísa meðal annars til reynslu eða þess sem menn viðhafa á öðrum Norðurlöndum þar sem er jafnvel enn erfiðara að gera breytingar. Ég man ekki hvort það var í dönsku stjórnarskránni eða þeirri sænsku sem þarf ekki einasta tvö þing heldur einnig þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er mjög hlynntur því að hægt sé að bera stjórnarskrárbreytingu undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu en forsendur fyrir því að það sé hægt tel ég vera að þingheimur verði þvingaður til að ná breiðri samstöðu, þ.e. mjög hátt hlutfall þingmanna og þá væri auðvitað algjörlega óásættanlegt ef 32 væru í þingsal, bara 2/3. Það þyrfti auðvitað að setja einhvern lágmarksfjölda.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé skoðun hans eða þingmanna Sjálfstæðisflokksins að skynsamlegt sé að breyta 79. gr. varanlega með það fyrir augum (Forseti hringir.) að stjórnarskrá yrði breytt með þessum hætti, í einni kosningu og þjóðaratkvæðagreiðslu, einni atkvæðagreiðslu í þinginu.