141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé alveg skýrt tala ég eingöngu fyrir mig persónulega og er ekki að túlka umræðuna sem á sér stað í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að skoðanir séu væntanlega skiptar, eins og hjá mörgum öðrum, um hvernig beri að breyta stjórnarskránni. Ég hef komið bara fram í umræðunni miðað við það verkefni sem er fyrir höndum.

Við vitum auðvitað, og höfum vitað í margar vikur, hvert málið stefnir. Málið er orðið algjörlega strand og hv. þingmenn reyna að gera sem best úr því og ég hef reynt að nálgast verkefnið þannig. Það er auðvitað mikilvægt að skoða þá hluti sem hv. þingmaður var að velta upp og ég gerði í fyrra svari mínu, að það þyrfti að vera lágmarksfjöldi en ekki 2/3 og þar fram eftir götunum. Það eru einhver verkefni sem ég held að við getum verið sammála um en það er reynsla okkar í gegnum tíðina að við höfum ekki verið að breyta stjórnarskránni, sem er kannski engin þörf á og ég er ekki að halda því fram. Það hefur myndast sú hefð að gera það einungis í breiðri sátt og samstöðu. Það er því auðvitað mikilvægt að við höldum þeirri vegferð áfram.