141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var gott í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan að rifja upp í raun og veru hver var grunntilgangur þess frumvarps sem hér er til umræðu. Það er frumvarp um breytingu á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, hangandi saman við þingsályktunartillögu, frá sömu flutningsmönnum, sem hefur þann tilgang að marka með einhverjum hætti hvernig fara eigi með framhald málsins bæði fram að nýju kjörtímabili og eins eftir að nýtt þing hefur verið kjörið.

Eins og aðrir ræðumenn ætla ég að geyma umræðuna um þingsályktunartillöguna þar til að henni kemur en verð þó að geta þess að ég hef miklar efasemdir um að það þing sem nú situr og er að láta af störfum innan fárra vikna eigi að gefa fyrirmæli til næsta þings um eitt eða annað í þessum efnum. Sérstaklega í ljósi þess að hér er um afar umdeilt mál að ræða og allt bendir til þess, þó að skoðanakönnunum beri auðvitað að taka með fyrirvara, að næsta þing verði töluvert öðruvísi samansett en það sem nú situr. Ég held því að hv. þingmenn ættu að fara varlega í að gefa næsta þingi fyrirmæli um hvað það eigi að samþykkja eða hvernig það eigi að haga sinni vinnu. Nóg um það.

Það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerði var að fjalla meðal annars um breytingarákvæðið sem er grundvöllur umræðunnar sem hér á að eiga sér stað. Atburðarás málsins hefur breyst nokkuð. Það má geta þess að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom með breytingartillögu af sinni hálfu við frumvarp formannanna um breytingarákvæðið, þ.e. breytingartillögu við breytingarákvæðið. Til þess að geta þess líka sem jákvætt þá hafði meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd greinilega hlustað á þær athugasemdir sem fram höfðu komið við meðferð málsins hvað breytingarákvæðið sem slíkt varðaði, þannig að það breytingarákvæði sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afgreiddi frá sér í síðustu viku er betur úr garði gert en það sem kom upphaflega fram frá formönnunum þremur. Menn geta þó haft athugasemdir við einstaka þætti eins og kom fram í fyrstu ræðu minni við umræðuna. Engu að síður er það skref í áttina og betra en það sem upphaflega kom frá formönnunum.

Eins og framsögumaður málsins út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hv. þm. Magnús Orri Schram, benti ítrekað á hér á dögunum komst málið í uppnám vegna þess að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, sem lengi vel starfaði þétt með meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, skar sig frá með því að bera fram breytingartillögu. Margir þingmenn hafa lýst tillögunni með þeim hætti að hún sé varla þingtæk enda fól hún í sér að allt heildarfrumvarpið, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, heil stjórnarskrá skrifuð frá upphafi til enda, væri borin fram sem breytingartillaga við tiltölulega einfalt breytingarákvæði. Með þessu var í raun og veru verið að smygla með heilu nýju máli og hafa menn velt fyrir sér hér í þessari umræðu hvort breytingartillöguflutningur af þessu tagi sé þingtækur. Um það hefur ekki verið kveðinn upp formlegur úrskurður en engu að síður hefur tillögumanni verið heimilað af hálfu forseta þingsins að flytja tillöguna. Látum það vera, en ég tek undir, eins og ég hef áður gert, með hv. þm. Magnúsi Orra Schram að þessi tillöguflutningur breytti eðli umræðunnar töluvert og setti hana í uppnám.

Annað sem hefur ruglað umræðuna, ef við getum orðað það sem svo, og sett hana í annað ljós er breytingartillaga um auðlindaákvæði sem kom fram nú á mánudaginn frá formönnum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, Oddnýju Harðardóttur og fleirum. Var sú tillaga flutt sem breytingartillaga við breytingarákvæðið. Þótt hún sé auðvitað alls ekki með sama hætti smyglgóss, ef við getum orðað það svo, og breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur er hún umhugsunarefni og jafnvel umdeilanleg í ljósi þess að hún fjallar um annað efnisatriði en upphaflega frumvarpið. Tillagan snýr að allt öðru viðfangsefni þó að í báðum tilvikum sé verið að tala um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Tillaga Margrétar er miklu öfgakenndara dæmi um slíkt, en segja má þó að tillaga hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og Oddnýjar Harðardóttur breyti líka eðli umræðunnar um hið upphaflega frumvarp.

Það sem gerir stöðuna enn flóknari er, eins og meðal annars kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni hér áðan, að ekki er útilokað að breytingartillögur um hvað sem er í stjórnarskránni komi fram síðar, við 2. umr. málsins, sem er heimilt, milli 2. og 3. umr. eða jafnvel við 3. umr. málsins. Þar gætu dúkkað upp alls konar breytingartillögur varðandi mál sem einstökum þingmönnum gæti þótt mikilvægt að koma í gegn.

Ég vil nefna eitt í þessu sambandi sem gæti verið raunhæft dæmi og það snýr að fullveldisframsali. Ég ætla að minna á að fyrir fáeinum vikum og mánuðum var mesta umræðan af hálfu þeirra sem telja brýnt að breyta stjórnarskránni um að brýnt væri og jafnvel brýnast, alla vega ef á tímafresti væri litið, að breyta ákvæðinu um fullveldisframsal þannig að íslenska ríkinu væri með tilteknum aðferðum heimilt að framselja ríkisvald eða hluta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana eftir ákveðnum reglum. Það er atriði sem hvað eftir annað hefur verið endurtekið í umræðunni á undanförnum árum að væri mikilvægasta breytingin á stjórnarskránni.

Sumir hafa gengið svo langt að segja að breyting af þessu tagi væri óhjákvæmileg og nauðsynleg ef menn vildu halda áfram samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég er ekki endilega sammála því en hvað sem því líður held ég að þarna sé um að ræða viðfangsefni sem við þurfum að takast á við. Við þurfum með einhverjum hætti að móta afstöðu okkar til þess hvaða aðferð á að vera viðhöfð hér á þingi þegar mál sem fela í sér fullveldisframsal eru afgreidd, eins og reynsla okkar síðustu missiri hefur leitt í ljós. Afgreiðsla svokallaðs loftslagsfrumvarps núna fyrir jólin og fleiri mála á undanförnum missirum sýnir okkur að við þurfum að hafa skýrar reglur í stjórnarskrá um hvaða málsmeðferðarreglur við höfum ef við ætlum á annað borð að framselja ríkisvald eða hluta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana.

Það kæmi mér ekki á óvart ef breytingartillaga af því tagi ætti eftir að koma fram, ekki síst vegna þess að einhver breyting í þá átt er óhjákvæmileg í augum þeirra sem vilja að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Hér á þingi eru margir, minni hluti reyndar í augnablikinu en engu að síður margir, sem vilja eindregið að Ísland verði meðlimur í Evrópusambandinu. Til þess að það geti orðið er augljóst og óhjákvæmilegt að breyta þarf stjórnarskránni og það þarf að gera áður en við verðum aðilar að Evrópusambandinu, annað er ekki heimilt.

Hæstv. forseti. Þess vegna kæmi mér ekki á óvart að málið kæmi líka inn í umræðuna á síðari stigum. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem eru í raun og veru að reyna að beita sér fyrir sem mestum stjórnarskrárbreytingum séu einhvern veginn að reyna að koma hlutunum áfram í skrefum, einhverjum hænufetum, en að atburðarásin verði síðan sú að við lok meðferðar málsins stöndum við frammi fyrir miklu fleiri álitamálum í sambandi við breytingar á stjórnarskrá en leit út fyrir þegar hv. þm. Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson og hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir lögðu fram sitt frumvarp. Þetta vekur áhyggjur og hefur áhrif á þá umræðu sem hér á sér stað um frumvarpið.