141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni afar gott svar. Allt þetta kjörtímabil hafa allar þær slaufur og skurðir sem ríkisstjórnin hefur ratað í leitt að einu markmiði, að liðka til fyrir því að betra sé fyrir Evrópusambandið að taka Ísland inn sem aðildarríki. Ég get talið upp Icesave, ég get talið upp stjórnarskrármálið, ég get talið upp þingsályktunartillögu 20/20 sem var samþykkt hér, hún sneri að því að skipta landinu upp í umdæmi eins og hentar Evrópusambandinu og öll sú lagasetning sem hefur farið fram hér í þinginu síðan umsóknin fór inn.

Ég hef sagt að stjórnkerfið liggi meira og minna á hliðinni, virðulegi forseti, vegna þess að öll orka í ráðuneytunum, orka, peningar og mannafli, fari í að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um hin og þessi frumvörpin sem verða gerð að lögum á Alþingi Íslendinga til að þjóðin geti smám saman lagað sig að Evrópusambandinu. Þetta liggur allt ljóst fyrir.

Það er merkilegt í þessu máli, komið fram yfir síðasta þingdag fyrir löngu, að þeir samfylkingarmenn sem höfðu sífellt óbragð í munni — já og vinstri grænir líka sem vildu alls ekki jöfnun atkvæðisréttar sem dæmi — fundu sér leið til að ná ekki utan um málið í þinginu. Þeir úthýstu því alltaf og vildu raunverulega aldrei fara þessa leið með stjórnarskrána eins og hæstv. forsætisráðherra valdi.

Þegar upp er staðið stíga þessir aðilar fram, formenn þessara tveggja stjórnmálaflokka og einn þingmaður utan flokka, og segja: Nú er komin sáttaleið í málinu, sópum stóra frumvarpinu út af borðinu og komum inn með frumvarp sem breytir breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Þarna kristallast hugsunarhátturinn hjá þessu fólki, það átti aldrei að breyta stjórnarskránni í heilu lagi. Málið er komið í tímaþröng og þá koma þessir aðilar með sáttatillögu svokallaða, að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar svo að ekki þurfi að rjúfa þing til að við getum afsalað fullveldi okkar til Evrópusambandsins. Svona liggur í málinu, virðulegi forseti.