141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, það er tvennt í henni sem ég vildi spyrja hv. þingmann nánar út í og annað snertir lagatæknilega hluti.

Eins og hv. þingmaður kom inn á, og reyndar hefur hv. þm. Illugi Gunnarsson líka velt því fyrir sér, má velta því fyrir sér hvort þær breytingartillögur sem liggja við breytingarákvæðið, við 79. gr., séu tækar til samþykktar ef við hugsum fræðilega, ef það kæmi til. Tillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur er mjög víðtæk og mjög umdeild og sem betur fer hafa ýmsir stjórnarliðar lýst því yfir að þeir muni ekki styðja hana. En tillaga þingflokksformanna stjórnarflokkanna, með tilstyrk eins þingmanns úr hvoru þingliði, um ákvæði náttúruauðlinda, sem breytingartillaga við 79. gr., er þá að koma til 1. umr. án þess að fengið hafi verið álit sérfræðinga á henni, án þess að hún hafi farið til umfjöllunar hjá sérfræðingum. Ef hún kæmi hér til 3. umr. og yrði samþykkt — segjum nú að þær aðstæður væru hér uppi að það yrði — spyr ég hvort það gangi upp að gera tillögu, frumvarp, að lögum eftir aðeins tvær umræður og það um stjórnarskrá Íslands? Þyrfti ekki að bæta við einni umræðu ef menn ætluðu að fara þessa leið?

Hitt atriðið sem ég ætla að spyrja hv. þingmann nánar út í varðar það reyndar hvort það sé forsenda fyrir því að ná sátt um að einbeita sér að breytingarákvæðinu, að menn dragi þessar breytingartillögur til baka og að menn hafi einhverja fullvissu fyrir því, eins og hv. þingmaður benti reyndar á, að hægt sé að koma inn með breytingartillögur um fullveldið í 3. umr., hvort menn geti fengið einhverja fullvissu fyrir því vegna hinna lagatæknilegu þröskulda að það verði ekki gert og hvort menn gætu stólað á það.