141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það atriði sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á í upphafi ræðu sinnar, um fjölda umræðna á þingi sem nauðsynlegar væru til að hægt væri að afgreiða frumvörp, er alveg réttmæt ábending. Það munu finnast fordæmi fyrir því í þingsögunni að forseti hafi bætt við umræðu þegar svo háttar til að róttækar breytingar eru gerðar á frumvarpi á málsmeðferðarstiginu þannig að í raun og veru sé um nýtt frumvarp að ræða. Það hefur því verið talið heimilt á grundvelli þingskapa að bæta við umræðum undir slíkum kringumstæðum. Ég hef ekki flett því upp nýlega en ég held að dæmin um það séu gömul en mundu engu að síður vera tæk sem fordæmi fyrir málsmeðferð að því leyti.

Hvernig forseti mundi úrskurða um þau efni veit ég ekki, það hefur ekki reynt á það enn þá. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að breytingartillögurnar, bæði breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur og breytingartillögur þingflokksformanna stjórnarflokkanna og fleiri, eru á mörkum þess að vera tækar miðað við að breytingartillaga á auðvitað að snúast um breytingu á efni máls en ekki stórkostlega viðbót eða róttæka breytingu þannig að í raun og veru sé um nýtt mál að ræða. Það er alveg hárrétt að þær er á gráu svæði hvað það varðar.

Ég hallast að því að tillaga Margrétar Tryggvadóttur sé einfaldlega vegna umfangs síns enn þá fjarlægari, á enn þá grárra eða svartara svæði ef við getum orðað það svo. Það er alveg örugglega hægt að finna fleiri fordæmi fyrir tillöguflutningi eins og hv. þingmenn Oddný G. Harðardóttir og Álfheiður Ingadóttir standa fyrir, það er ábyggilega hægt að finna fleiri fordæmi fyrir því að breytingartillögur hafi komið fram á slíkan hátt. (Forseti hringir.) Engu að síður er auðvitað verið að bæta við eitt efnisatriði einhverju allt öðru efnisatriði. (Forseti hringir.) Það er að sjálfsögðu umhugsunarefni, hæstv. forseti.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að þeir virði ræðutímann.)