141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég þori að byrja þar sem ég hef bara tvær mínútur til þess en ég skal reyna að halda mig innan tímamarka.

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að án efa sé nauðsynlegt að fara yfir málið, við erum jú að tala um stjórnarskrána. Þetta hefur auðvitað gerst í öðrum málum og er hefð fyrir því, en við erum að tala um stjórnarskrána og ég held að mjög mikilvægt sé að málið verði látið ganga alla leið.

Varðandi það atriði sem kom fram hjá hv. þingmanni, og reyndar líka hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, um hvort hægt sé að ná samkomulagi um breytingarákvæðið tel ég einfaldlega að þrátt fyrir mikinn vilja okkar framsóknarmanna að ná inn náttúruauðlindaákvæðinu, ef menn eru svo fjarri hver öðrum eins og raun ber vitni í tillögum þingflokksformanna stjórnarflokkanna, tillögum stjórnlagaráðsins og svo t.d. þeirri miðlunartillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram og var nánast samhljóða tillögu frá auðlindanefndinni árið 2000, og miðað við viðbrögðin sem sú hugmynd fékk þegar við vörpuðum henni fram fyrir hálfum mánuði sem umræðugrundvelli til að ljúka málinu, sé nauðsynlegt að kalla til sérfræðinga. Það mun alla vega taka einhverja daga og við erum að fara í páskafrí og ég er ekki viss um að sérfræðingar mundu gefa sér þann tíma til að klára það ef við ætluðum að ljúka málinu á næstu dögum.

Telur hv. þingmaður að hægt sé að finna flöt á breytingarákvæðinu? Ég hef lýst þeirri skoðun að ég er efins um að við eigum að fara í þann farveg að gera það auðveldara að breyta stjórnarskránni, en það má hugsa sér að hægt sé að fara einhverja aðra leið sem væri jafvel jafn þung í vöfum og þvingaði menn (Forseti hringir.) til að ná saman.

(Forseti (RR): Enn ítrekar forseti og beinir þeim tilmælum til þingmanna að virða ræðutímann.)