141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Enn og aftur er umræðan hafin um stjórnarskrá Íslands og breytingar á stjórnarskipunarlögum. Ég verð að lýsa því yfir hér og nú að mér þykir það mjög miður hvernig málið hefur þróast. Mér þykir það mjög miður að Alþingi Íslendinga skuli vera sett í þá stöðu að vinna að breytingum á stjórnarskrá landsins með þeim hætti sem hér er viðhafður.

Ég var að koma að norðan núna um hádegið. Ég skaust norður í þinghléinu í gær og eins og fólk þekkir og veit eru Norðlendingar ekki vanir að liggja á skoðunum sínum. Þegar ég flaug suður í morgun var ég spurður að því hvað um væri að vera, hvernig þingstörfin gengju. Ég sagði að nú lægi það fyrir að umræðan um stjórnarskrármálið hæfist aftur. Þá ætlaði það fólk sem gaf sig á tal við mig, sem voru allnokkrir einstaklingar, ekki að trúa því að við værum að hefja þá umræðu að nýju og þann dans sem boðið hefur verið upp á hér alllengi, hvort ætluðum virkilega að fara að stíga hann því að í honum væri enginn taktur. Hér eru stigin algjörlega taktlaus spor. Þingið er hvorki í takt hér innan salar né heldur í takt við almenning úti í íslensku þjóðfélagi. Það er mjög miður.

Þó svo að hér telji allnokkrir þingmenn að þeir tali í umboði þjóðarinnar þegar þeir mæla mjög stíft með því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar gangi eftir og að það verk verði unnið, þá fullyrði ég að sú þjóð sem þeir telja sig tala fyrir er ekki allur almenningur á Íslandi. Ég leyfi mér að fullyrða að það er enginn eftirspurn eftir því úti í samfélaginu nú um stundir og það er ekki neitt forgangsmál fyrir þingið að ljúka við stjórnarskrármálið áður en gengið verður til kosninga á vori komanda eftir rétt rúman mánuð.

Ég skynja stöðuna þannig og ég er alveg sannfærður um að ég er ekki einn um að telja að almenningur á Íslandi kalli ekki eftir því að Alþingi þess eyði tíma sínum í það mál sem hér liggur fyrir, heldur bíði brýnni mál afgreiðslu og vinnu þingsins. Ég mundi ætla í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í málinu og störfum þingsins að ríkari krafa sé frá almenningi í þessu landi um að Alþingi Íslendinga ljúki störfum þegar í stað og að stjórnmálamenn og flokkar, samtök, gangi út í vorið til móts við kjósendur og reyni að gera þeim skynsamlega og þokkalega grein fyrir því með hvaða hætti stjórnmálaöflin á Íslandi ætla sér að vinna í þágu almennings á næstu fjórum árum.

Í þeirri kröfu birtist í það minnsta skilningur almennings í þessu landi á því hlutverki sem Alþingi Íslendinga og stjórnmálaöflin í landinu eiga að hafa. Það er mjög miður að við séum í þeirri stöðu hér og nú að endurtaka þann ljóta leik sem leikinn var vorið 2009 þegar einungis örfáir dagar, liggur mér við að segja, liðu frá því að þinginu var slitið í þrasi um stjórnarskrá Íslands þar til stjórnmálaflokkarnir og framboðin öll sem þá voru komin í gang höfðu tækifæri til þess að ganga til móts við kjósendur og mæta þeim á þeirra vettvangi, gera grein fyrir störfum sínum á liðnu kjörtímabili og ekki síður að gera þeim grein fyrir því hvaða framtíðarsýn stjórnmálaflokkarnir byðu almenningi í þessu landi.

Það kann vel að vera að málatilbúnaðurinn í því máli sem hér liggur fyrir sé undirliggjandi með þeim hætti að stjórnmálaflokkarnir og þeir sem ráða eiga för, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri grænir og Samfylkingin, vilji síður gefa almenningi í landinu færi á því að eiga við sig skoðanaskipti um það hvernig samræmi hefur verið á milli kosningaloforða þeirra vorið 2009 og efnda þeirra loforða. Hugsanlega er það skýring á því hvers vegna það dregst og dregst og dregst, að klækjastjórnmálin séu með þeim hætti að Samfylkingin og Vinstri græn vilji forðast það í lengstu lög að ræða samhengið á milli orða og efnda í starfi sínu á því kjörtímabili sem nú er senn á enda.

Það er svo einkennilegt að verða vitni að því hvernig unnið að er þessu máli að í raun er verið að ræða hér breytingartillögu við stjórnarskrá Íslands sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram, sem er breytingartillaga við gildandi stjórnarskrá. Við breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa komið fram þrjár breytingartillögur, ein er frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, sem vill að tillaga stjórnskipunar og eftirlitsnefndar verði tekin öll inn í einu lagi og afgreidd. Önnur breytingartillaga liggur fyrir við núgildandi stjórnarskrá og kemur frá formönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páli Árnasyni og formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, utan flokka. Lokatillagan er síðan frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna og lýtur að svokölluðu auðlindaákvæði.

Þingið er sem sagt komið í þá stöðu að ræða breytingartillögur á breytingartillögur ofan og málið er þannig vaxið að það er orðin ein allsherjarbreytingartillaga sem við ræðum hér. Það er í rauninni engin furða þó að almenningur sé fyrir löngu búinn að missa yfirsýn yfir þá þræði sem hér er verið að reyna að spinna.

Forsaga málsins er sú að stjórnlagaráð skilaði tillögu að frumvarpi að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar einhvern tímann síðsumars árið 2011. Þá tók við japl og jaml og fuður en undir lokin var það frumvarp sent til umsagnar og gestir kallaðir fyrir nefndina. Í febrúar 2012 kom fram hugmynd um að setja í gang þjóðaratkvæðagreiðslu jafnhliða forsetakosningum um þá tillögu að stjórnarskrá sem fyrir lá. Ég segi: Sem betur fer varð ekki af þeim áformum. Tillagan kom mjög seint fram í einhvers konar krampakasti til þess að reyna að bjarga andliti einhverra sem barist höfðu mjög hart fyrir þessu máli. Hvað um það.

Haustið 2012 var gengið til skoðanakönnunar varðandi stjórnarskrána. Það var gert áður en hinn svokallaði sérfræðingahópur, hópur lögfræðinga, hafði lokið störfum. Hann skilaði ábendingum sínum raunar ekki fyrr en mánuði eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem svo er kölluð en var skoðanakönnun, var gerð. Síðan kom fram tillaga að frumvarpi frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ef ég man rétt í nóvember 2012. Það var gert áður en umsögn svokallaðrar Feneyjanefndar um málið lá fyrir. Á grundvelli þessa varð til ný breytingartillaga sem kom fram. Svo komu breytingartillögur frá hv. formönnum Samfylkingar og Vinstri grænna og þingmanni utan flokka fram núna á síðustu dögum þingsins og síðan hinar breytingartillögurnar í framhaldi af því.

Eins og komið hefur fram í umræðunni hafa menn í sjálfu sér ekki útilokað að fram komi fleiri breytingartillögur, um það getur enginn sagt því að það sem hér liggur fyrir hefur skotist upp á yfirborðið óforvarindis og hefur komið gríðarlega á óvart, þó sérstaklega sú tillaga sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir flutti.

Menn hafa spurt: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að ganga til þess verks að ljúka afgreiðslu á þeim tillögum sem hér liggja fyrir? Það er ekki nema von að spurt sé, en ástæðan fyrir því er æðimargbrotin. Það er ekki eingöngu það að stjórnarandstaðan sé með sínar hugmyndir varðandi breytingaferlið á stjórnarskránni, legið hefur fyrir í allnokkurn tíma að núverandi ríkisstjórn er ekki meirihlutastjórn, heldur treystir hún á stuðning þingmanna Hreyfingarinnar annað slagið, ásamt stuðning frá þingmönnum utan flokka. Við bætist síðan að innan meirihlutaflokkanna svokölluðu, sem eru í rauninni minnihlutaflokkar hér á þingi, þ.e. Samfylkingin og Vinstri græn, er bullandi ágreiningur í málinu. Meðal annars hefur hv. þm. Lúðvík Geirsson upplýst um að ekki sé meiri hluti innan stjórnarflokkanna fyrir afgreiðslu á einhverjum þeirra breytingartillagana sem hér liggja fyrir en ég ætla ekki að fara að úttala mig mikið um það.

Til viðbótar eru síðan skiptar skoðanir innan stjórnarandstöðuflokkanna þannig að málið er enn þá varðað ýmsum þröskuldum sem þinginu virðist gjörsamlega ómögulegt að komast yfir. Það er sárt til þess að vita eftir alla þá vinnu sem í málið hefur verið lagt að Alþingi Íslendinga skuli ekki geta hafa haldið betur á málinu en raun ber vitni í því efni sem ég hef rakið hér.

Eflaust má segja að sá ágreiningur sem birtist í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað eigi sér ýmiss konar rætur. Þær rísa ekki endilega af pólitískum ágreiningi milli ólíkra stjórnmálaflokka heldur fullyrði ég að sérstaklega innan stjórnarflokkanna eru einstaklingar sem stefna ekki að því að út úr allri vinnunni komi einhver heildstæð mynd sem almenn samstaða getur ríkt um í þjóðfélaginu.

Þó finnst mér hafa verið mjög áberandi í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikurnar um málið, með nokkrum hléum, að þingmenn almennt vilji leggja rækt við að búa svo um hnútana að um stjórnarskrá Íslands geti verið þokkalega góð og mikil samstaða. Af einhverjum ástæðum er málið eilíflega í þessum sama hnút. Ég kann engar skýringar á því aðrar en þær að núverandi hv. Alþingi ráði einfaldlega ekki við að afgreiða málið svo sómi sé að. Það er bara heiðarlegt að viðurkenna það.

Þegar sú staða er uppi er skoðun mín afdráttarlaust sú að leggja eigi málið til hliðar og ætla nýju þingi að ganga frá því með þeim hætti að til sóma sé. Ég tel engan sóma að því verki að ljúka því hálfköruðu í tómum illindum og leiðindabasli og teldi raunar farsælast að menn kæmu sér saman um örfá brýn mál sem miðuðu að því að hleypa einhverju súrefni að almenningi og atvinnulífi í landinu, í stað þess að þjarka um málið sem ég fullyrði að lítil sem engin eftirspurn er eftir meðal almennings, utan veggja þessa húss.

Ég hef staldrað hér nokkuð við álit tveggja einstaklinga, fræðimanna, sem fengnir voru til þess að gefa umsagnir sínar um tillögur stjórnlagaráðs varðandi breytingar á stjórnarskránni þegar þær komu fram. Mér hefur þótt ágætt að grípa niður í umsagnir þeirra. Þetta eru virtir fræðimenn hvor á sínu sviði, eða báðir raunar á svipuðum slóðum í fræðum sínum, þeir Ágúst Þór Árnason, sem er deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, doktor í stjórnarskrárfræðum, og Skúli Magnússon, sem er dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Sú greinargerð sem þeir skiluðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að beiðni nefndarinnar er mjög mikil að vöxtum. Hún er mjög ítarleg, einar 36 blaðsíður. Ég held að þarft sé að vitna aðeins til þess með hvaða hætti þeir nálgast viðfangsefnið. Umsögnin sem þeir lögðu fram í byrjun árs 2012 er rituð í nafni þeirra sem einstaklinga og þeir skila henni sameiginlega. Þeir leggja hana alfarið fram á eigin ábyrgð en ekki þeirra stofnana sem þeir starfa fyrir, þ.e. hvorki Háskóla Íslands né Háskólans á Akureyri. Báðir þessir einstaklingar áttu sæti í stjórnlaganefnd sem starfaði á árinu 2010 og hafði það hlutverk að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskránni. Það er fróðlegt að lesa mat þeirra á því verklagi sem þar var viðhaft. Ég vitna, með leyfi forseta, beint til álits þeirra í þessum efnum. Það hljóðar svo:

„Af því tilefni viljum við taka fram að það er mat okkar að sá tími sem nefndinni var ætlaður til undirbúnings þjóðfundar, upplýsingaöflunar og endurskoðunar stjórnarskrárinnar hafi verið of skammur og lagaleg afmörkun á hlutverki nefndarinnar hafi verið ófullkomin. Við erum einnig þeirrar skoðunar að sá tími sem stjórnlagaþingi var ætlaður (að hámarki fjórir mánuðir) hafi verið of stuttur fyrir svo viðamikið og mikilvægt verkefni.“

Ég held að sé full þörf á því að undirstrika þau orð við þá umræðu sem hér á sér stað, ekki síst í ljósi þess hvernig við höfum síðan séð málið þróast og hvernig unnið hefur verið að því á þeim tíma sem liðinn er frá því stjórnlaganefndin starfaði. Mér virðist sem svo að tíminn sem gefinn var til þess að vinna málið í stjórnlagaráði og ekki síður á Alþingi, hafi alltaf verið að styttast meira og meira, sem gengur í rauninni þvert á álit þessara tveggja ágætu fræðimanna varðandi það hvernig standa á að breytingum á stjórnarskrá. Það á vanda til verka og gefa sér þann tíma sem til þarf til að reyna að ná samkomulagi og ekki síður sama skilningi á þeim ákvæðum sem verið er að breyta og eins á þeim sem ætlunin er að setja inn.

Fræðimennirnir fjalla aðeins nánar um þætti sem ég ætla að staldra aðeins við. Það vakti sérstaka athygli mína að þeir nefna það, ólíkt því sem haldið hefur verið fram, að markmiðið með þeim breytingum eða setningu á stjórnarskrá árin 1874, 1920 og 1944 sé þveröfugt við markmiðið með breytingunum á því herrans ári 2013, því verki sem hófst 2010. Nú eru markmið endurskoðunarinnar mörg óljós og umdeild. Fræðimennirnir benda á grundvallaratriðið, sjálft tilefni þess að vinna við breytingar á stjórnarskrá var hafin. Þeir benda á að endurskoðunin á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins hafi verið sett af stað öðrum þræði vegna þess að fjármálakerfi landsins hrundi á árinu 2008 þó svo að það hrun yrði ekki rakið til annmarka á íslensku stjórnskipuninni, a.m.k. ekki með beinum hætti að mati þessara ágætu fræðimanna.

Þarna held ég að við séum með ágæta og einstaka skýringu á því hvers vegna ósætti er uppi um þetta verk. Að minni hyggju er hægt að rekja það til uppruna málsins. Hann er sá að efnt er til þessa verkefnis í gríðarlega erfiðri og umdeildri stöðu í íslensku samfélagi þar sem allt logar í illindum og innbyrðis deilum. Það er ekki gott tilefni til þess að ganga til þess að endurskoða stjórnskipunina þegar svo háttar til í íslensku þjóðfélagi. Það er mat mitt.

Það lýsir sér ágætlega í þeirri staðreynd sem liggur fyrir í formi þessara breytingartillagna allra við breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar spurt er hvers vegna í ósköpunum þingið geti ekki náð saman um að afgreiða þær, þá ekki síst þá breytingartillögu sem hv. þm. Árni Páll Árnason er fyrsti flutningsmaður að og lýtur að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Hvers vegna er ekki hægt að afgreiða hana? Það er einföld ástæða fyrir því sem liggur í þeirri nöturlegu staðreynd að tillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sem kölluð hefur verið tundurskeytið inniheldur heildarendurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Það er sjálfsagt ekki þingmeirihluti fyrir henni þótt því sé haldið fram við stjórnarandstöðuna að svo sé, en það er mjög einfalt að horfa til þess að á meðan engin trygging er fyrir því að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur verði ekki afgreidd verður málið í þeirri pattstöðu sem raun ber vitni í dag og hefur verið síðustu daga.

Þó svo að núverandi minnihlutastjórn og fulltrúar hennar, ágætir einstaklingar, fullyrði það í eyru stjórnarandstöðunnar, og þó sérstaklega þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að ekki sé þingmeirihluti fyrir tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur segir sagan okkur að þeim orðum er ekki hægt að treysta. Það kann einhverjum að þykja það mjög hörð orð frá mér úr ræðustól Alþingis, en engu að síður er staðreyndin sú að þegar við höfum upplifað í þessum ágæta sal að alþingismenn dæmdu einn einstakling til þess að ganga fyrir landsdóm, rýfur það traust og griðarbönd á milli þeirra sem hér starfa, ekki síst í ljósi þeirrar aðferðar sem viðhöfð var við það verk að dæma einn úr hópi fleiri andstæðinga til þess að fara þessa píslargöngu. Dettur mönnum virkilega í hug að sú framganga sem þar átti sér stað og er fordæmalaus geti með einhverjum hætti orðið til þess að efla á síðari stigum traust á milli stjórnmálaafla hér á Alþingi? Dettur einhverjum í hug að slík framganga sé til þess fallin að vekja traust á stjórnmálum á Íslandi? Dettur yfir höfuð einhverjum í hug að þeir sem gengu fram með þeim hætti verði einhvern tímann álitnir trúverðugir af pólitískum andstæðingum sínum? Dettur einhverjum í hug að orðum þeirra verði treyst af þingflokki Sjálfstæðisflokksins þegar á reynir í svo stóru máli sem stjórnarskrá Íslands er, að orðum þeirra verði treyst sem dæmdu í þessum þingsal með þeim hætti sem raun ber vitni? Það er óravegur frá því að orðum þeirra verði treyst, ekki síst þegar kemur að afgreiðslu um jafnmikilvægt mál og stjórnarskrá Íslands.

Það er ekki hægt að varpa yfir málið einhverjum huliðshjálmi. Framganga sérstaklega einstakra hæstv. ráðherra úr hópi Vinstri grænna og einstakra þingmanna Samfylkingarinnar var þannig að það er með ólíkindum að ætlast sé til þess að menn geti treyst orðum þeirra þegar fullyrt er í samtölum stjórnmálaflokkanna á Alþingi að það liggi fyrir að þeir muni ábyrgjast að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur verði ekki samþykkt í þessum sal. Þeim orðum er ekki hægt að treysta. Meðal annars af þessari ástæðu er málið í þeim hnút sem raun ber vitni.

Það kann vel að vera hluti af því verki sem hófst í október, nóvember, desember 2008 og á vormánuðum 2009. Þegar ókyrrðin, óeiningin í þjóðfélaginu var sem mest er alveg ljóst að ákveðnar tillögur í þeim tillögupakka sem breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hljóða upp á gefa tilefni til ýmissa spurninga, sérstaklega varðandi alþingiskosningarnar. Þær kristallast ágætlega í því skjali sem lagt hefur verið fram og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir vill afgreiða. Það er mat fræðimanna sumra hverra og sennilega flestra að ákvæði í þá veru mundi orsaka verulegar breytingar á samspili stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og á sambandi þeirra við kjósendur og þrýstihópa. Því er varpað fram í þeirri álitsgerð sem ég vitnaði í frá fræðimönnunum Ágústi Þór Árnasyni og Skúla Magnússyni að sú spurning kvikni hvort þingmannsefni eða þeir sem hyggja á framboð til Alþingis muni fara að reiða sig í auknum mæli á félagasamtök og hagsmunahópa í stað þess að starfa innan hefðbundinna stjórnmálaflokka.

Nærtækt er að hugsa sem svo að það hafi ef til vill verið meðvituð ákvörðun hjá stjórnlagaráði að koma hlutunum fyrir með þeim hætti. Ég er ósammála því að vinna eigi með þeim hætti af þeirri einföldu ástæðu að slík breyting mundi leiða til þess að kjósendur og almenningur í þessu landi mundu eiga erfiðara fyrir við val á milli þeirra málefna sem efst eru á baugi í samfélaginu hverju sinni og sem stjórnmálaflokkar eiga að standa fyrir í heilbrigðu og eðlilegu fulltrúalýðræðiskerfi í kosningum hverju sinni. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því að vegið sé að því kerfi. Ég tel að það hafi reynst okkur vel þó svo að það sé ekki gallalaust, en ég hef ekki komið auga á annað betra.

Þessir ágætu fræðimenn nefna fleiri þætti sem þessu tengjast og rökstyðja spurningu sína vel og komast að þeirri niðurstöðu að þær tillögur sem stjórnlagaráð bjó til með þessum hætti muni ekki fela í sér neina raunverulega styrkingu á Alþingi sem vettvang lýðræðislegrar umræðu og ákvarðanatöku í helstu málefnum þjóðarinnar. Það muni þvert á móti veikja Alþingi í þeirri ákvarðanatöku sem hér þarf að fara fram.

Það er ýmislegt annað sem ég geld varhuga við í þeirri hugsun sem dregin er inn í þennan tillögupakka allan, ekki síst er það sú áhersla sem verið hefur á breytingar á kosningakerfinu hér á landi. Ég hef gert það að umtalsefni í fyrri ræðum mínum um málið á yfirstandandi þingi og við sáum þess stað í síðustu tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem var reynt að taka út allt það sem óþægilegt var og hlotið hafði gagnrýni. Hins vegar var tímafresturinn eða hastið það mikið að ekki var gefinn tími til þess í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að útfæra hina nýju hugsun sem átti að vera í breyttu og nýju kosningakerfi. Þegar gengið var á einstaka fulltrúa í nefndinni var vísað til þess að hugsunin væri sú að taka upp kosningakerfi eins og í Hollandi, en það hefur enginn í þeirri umræðu, sem staðið hefur of lengi, svo mikið sem reynt að útskýra í hverju það er fólgið. Það er kannski ekki stóra málið, heldur er gert ráð fyrir því að sú breyting sem lögð er til í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur gerir ráð fyrir því að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi, að boðnir séu fram listar í kjördæmum o.s.frv., breytingar á kjördæmamörkum og úthlutun þingsæta, mæla á fyrir því í lögum og verða breytingarnar einungis gerðar með samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi.

Það á að vera bráðabirgðaákvæði. Það á ekki að setja það í stjórnarskrá landsins hvernig landinu er skipt í kjördæmi eða hversu mörg þau eiga að vera. Þetta er í rauninni þannig vaxin tillaga að allt sem er óþægilegt og erfitt í umræðunni í aðdraganda kosninga í huga þeirra sem vilja að landið verið eitt kjördæmi er tekið út úr þeim texta sem fyrir var. Svo er málið skilið eftir galopið fyrir annað þing sem getur þá útfært það. Það er í mínum huga algjörlega óboðlegur frágangur og raunar með ólíkindum að það skuli sett fram í því formi sem það birtist hér. Það er raunar enn og aftur með ólíkindum að við þurfum að upplifa það hér að almenningi á Íslandi sé boðið upp á að ákvæði varðandi kosningarrétt og vægi landsbyggðarinnar, sérstaklega í kjördæmaskipuninni, skuli unnið með þeim hætti sem hér ber að líta.

Ég undirstrika að afstaða mín í málinu er sú að í ljósi sögunnar sé fullt til efni til þess að breyta og gera lagfæringar í ýmsum efnum á stjórnarskrá landsins. Ég er hins vegar eindregið andvígur því að það sé gert með þeim hætti sem málið hefur þurft að sæta af hálfu þingsins og ítreka þá skoðun mína sem ég gat um í upphafi ræðu minnar að best færi á því að ágreiningurinn um grundvallarlög okkar yrði lagður til hliðar og að þingið einbeitti sér að því að ljúka störfum á sem skemmstum tíma um þau meginmál sem horfa til heilla fyrir almenning og fyrirtæki í þessu landi. Ég kýs að Alþingi einbeiti sér að því að ganga til þess verks að traust almennings á þessari elstu löggjafarsamkundu veraldar verði endurnýjað. Það verður ekki gert með þeim starfsháttum sem í boði eru nú um stundir. Það verður einungis gert með einum hætti, traust á Alþingi verður ekki endurnýjað nema með kosningum. Endurnýjað traust á Alþingi verður ekki byggt upp nema stjórnmálaöflin í landinu, samtök, stjórnmálaflokkar og hreyfingar, gangi fram fyrir kjósendur, leggi stefnumál sín fram fyrir þá í aðdraganda kosninga og geri upp þau ár sem senn eru að baki, þau fjögur ár kjörtímabilsins. Ég kýs að túlka það sem svo að við séum að rífast hér og ganga á þann tíma sem almennir kjósendur hafa til þess að gera upp á milli hinna ólíku kosta sem bjóðast í komandi alþingiskosningum.

Það er mikil synd. Ég leyfi mér að fullyrða að það er engum einum um að kenna, þetta er okkar sameiginlega ábyrgð, allra þessara sextíu og þriggja kjörnu alþingismanna sem starfað hafa hér síðastliðin fjögur ár. Ábyrgð okkar er sú að gera hinum almenna kjósanda grein fyrir því augliti til auglitis í sem flestum tilfellum hvernig málum hefur verið skipað á kjörtímabilinu og ekki síður, sem ég held að sé til muna ríkari krafa úti í þjóðfélaginu, að eiga skoðanaskipti við almenning og gera honum grein fyrir því með hvaða hætti við sjáum okkur vinna að hagsmunum þeirra næstu fjögur árin. Það held ég að sé grundvallaratriði, en mér sýnist sem svo að ætlunin sé að sá tími sem gefst til þessa góða starfs verði sem stystur af einhverjum ástæðum sem eru óútskýrðar. Ég ætla að það sé á þeim forsendum að núverandi minnihlutastjórn treystir sér ekki til þess verks, því miður.

Enn og aftur vek ég athygli á umsögn þeirra ágætu fræðimanna sem ég vitnaði til, Ágústs Þórs Árnasonar og Skúla Magnússonar, þar sem þeir vitna til þess að ekki hafi verið gefinn nægilegur tími til þess að vinna að breytingum á stjórnarskrá. Þeir lýsa því afdráttarlaust yfir að ákveðinn hluti tillagnanna sé í rauninni ókannaður og að ekki hafi gefist færi á því að leggja heildstætt mat á áhrif þeirra breytinga sem af þessu stóra verki leiðir. Ég er sammála mati þeirra og hefði talið að við værum betur sett með að færa málið í þann búning sem þeir hafa gert tillögu um þar sem forsendur skortir til þess að leggja mat á þær breytingartillögur allar sem legið hafa fyrir í verkinu. Betra væri ef við settum niður sérstaka vinnuhópa eða nefndir um afmörkuð mál til þess að leggja fram fullmótaðar tillögur og leggja mat á áhrif þeirra í einhverju heildstæðu verki og einhverri heildstæðri mynd, og leggja það síðan fyrir þjóðina til afgreiðslu. Fræðimennirnir ganga svo langt að gera tillögur um verklag við það þar sem þeir leggja til fjóra starfshópa, í fyrsta lagi nefnd um kjördæma- og kosningaskipan, þá nefnd um störf ríkisstjórnar og stöðu ráðherra og nefnd um mannréttindi. Í fjórða lagi leggja þeir til að skipuð verði nefnd eða starfshópur um stöðu þjóðarréttar, þar á meðal um alþjóðleg mannréttindi.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, forseti, þykir mér þetta skynsamleg, yfirveguð, hógvær nálgun hjá þessum ágætu fræðimönnum og mér hefði þótt betra og eðlilegra að við hefðum farið að þeirra ágætu ráðum.