141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt einkenni málþófs þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar fara að mæta í andsvör hver við annan, hrósa hver öðrum fyrir ræður og spyrja síðan um allt aðra hluti en efnisinntak ræðunnar fjallaði um. Nú sjáum við það á andsvörum hv. þingmanna við ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að hér er hafið málþóf um stjórnarskrána.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann: Hvert telur hann að sé raunverulegt umboð þess þingmeirihluta sem situr á Alþingi Íslendinga óháð því hvaða flokkum menn tilheyra? Hvenær lýkur því umboði að mati hv. þingmanns? Lýkur því ekki einmitt við næstu kosningar? Hefur þingmeirihlutinn hér, þingið, þar af leiðandi ekki fullt umboð að mati þingmannsins frá kjósendum ársins 2009 til að ljúka starfi sínu og koma í gegn þeim málum sem þingmeirihlutinn beitt sér fyrir í aðdraganda síðustu kosninga, hét kjósendum og er núna að reyna að ná fram, m.a. með því að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá? Hvers vegna ætti minni hlutinn á Alþingi Íslendinga að fá að komast upp með það, með því að misbeita þingsköpum og beita málþófi, að hindra löglegan framgang þingræðisins?