141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og sérstaklega fyrir þá staðreynd að með því, samkvæmt eigin skilgreiningu, er málþófinu lokið. Þegar stjórnarþingmaður og stjórnarandstöðuþingmaður eiga í samtali ætti það ekki að vera málþóf þannig að ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að rjúfa hið svokallaða málþóf sem hún kallar svo.

Hún spyr hvort núverandi þingmenn í minnihlutastjórninni hafi ekki fullt umboð frá kjósendum 2009. Ég efast um að kjósendur ársins 2009 treysti núverandi minnihlutastjórn til að ljúka verkinu. Í það minnsta er ég sannfærður um, miðað við það hljóð sem ég heyri, að traust almennings til núverandi minnihlutastjórnar, og raunar Alþingis alls, sé til muna minna á árinu 2013 en það var 2009. Vissulega má því segja að við séum hér inni á grunni þess sem við vorum eða þeirra kosninga sem fóru fram í apríl 2009.

Ég bendi hv. þingmanni líka á breytingarnar sem hafa orðið, m.a. í hennar eigin flokki og í þingflokki stjórnarflokkanna, á svif þingmanna milli ólíkra stjórnmálaflokka. Fylgir kjósendahópur til dæmis hv. þm. Þráni Bertelssyni frá Borgarahreyfingunni yfir til Vinstri grænna? Ég hef ekki hugmynd um það en efast stórlega um það. Það má alveg deila um hvert umboðið er hjá einstökum þingmönnum þegar við ræðum þá hluti.

Ég álít að minni hluti Alþingis, stjórnarandstaðan, sé ekki að misbeita þingsköpum. Það höfum við aldrei gert. Við förum bara að réttinum sem stjórnarandstöðunni er tryggður í þeim lögum sem gilda (Forseti hringir.) um þau efni.