141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja, vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur aldrei upplifað það að hann hafi verið að greiða atkvæði um stjórnarskrána í alþingiskosningum, að ég er til dæmis að vísa til stjórnarskrárbreytinganna 1995 þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var í raun settur inn í stjórnarskrána. Ef til vill var það þannig að kjósendur upplifðu það ekki að verið væri að breyta stjórnarskránni vegna þess að það var víðtæk sátt um að gera þá stjórnarskrárbreytingu á þeim tíma. Um hana var víðtæk sátt í þinginu, ekki þær deilur og sú upplausn sem nú ríkir. Þess vegna er sáttin ekki heldur skrifuð inn í stjórnarskrána. En þetta er þýðing þess að gera stjórnarskrárbreytingar í víðtækri sátt, það er til þess að einhverjar umdeildar stjórnarskrárbreytingar þurfi ekki að verða að kosningamáli. Þetta er galdurinn við að hafa stöðuga stjórnarskrá og þann grunn að stjórnarskráin er samfélagssáttmáli og um hann á að ríkja mikil sátt.

Það á ekki að fara þannig fyrir okkur að hér verði sett stjórnarskrá vinstri manna. Ég bendi á það sem er að gerast núna í Úkraínu. Þar sitja hægri menn við völd og það þarf eingöngu 2/3 þingsins til að breyta stjórnarskrá. Þessi flokkur hefur rúman meiri hluta þar í þinginu og hvað hefur gerst, virðuleg forseti? Þeir eru búnir að breyta stjórnarskránni fjórum sinnum á þessu kjörtímabili því að engir innri hemlar eru á það. Ef það myndast svona stór meiri hluti getur einn flokkur ráðið því sem hann vill í grunnlögum og stjórnarskipunarlögum landsins.

Þess vegna, virðulegi forseti, á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá svo að tíðarandi eða pólitísk sveifla geri það ekki að verkum að einhver öfl eða stjórnmálahreyfing geti rústað þeim grunni sem stjórnarskrá er.