141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í allri umræðunni um stjórnarskrána hef ég ekki heyrt í neinum sem telur að breytingar á stjórnarskrá eigi að geta átt sér stað frá mánuði til mánaðar. Þetta eigi að vera seigfljótandi breytingar og það eigi að vera um þær sátt. Ég hef eiginlega ekki heyrt neinn tala öðruvísi.

Hins vegar eru þær breytingar sem nefndin lagði til þannig að menn vildu hafa þröskuldinn mjög lágan, 25%. Af hverju, herra forseti? Af því menn óttuðust að það yrði bara enginn áhugi hjá þjóðinni um stjórnarskrárbreytingar, þeir óttuðust að þjóðin mundi ekki mæta til leiks þegar ætlast væri til þess að hún greiddi atkvæði um breytingar á stjórnarskránni. Í slíku tilfelli — og þess vegna kom ég með mína tillögu — þegar menn eru farnir að óttast að þjóðin taki ekki þátt í atkvæðagreiðslunni, legg ég til að fulltrúalýðræðið taki yfir. Ef þjóðin hefur ekki áhuga á því að breyta stjórnarskrá eða samþykkja einhverjar breytingar og mætir ekki á kjörstað eigi fulltrúalýðræðið að taka yfir.

Ég hef þá trú á lýðræðinu að ég vil að meiri hluti kjósenda samþykki stjórnarskrárbreytinguna þannig að við getum sagt: Þetta er stjórnarskrá þjóðarinnar, meiri hluta þjóðarinnar. Það þvingar líka fram ákveðna samstöðu. Einnig það að 40 þingmenn þurfa að greiða atkvæði þvingar fram samstöðu sem hefur reyndar, eins og ég gat um í ræðu minni, alltaf verið haldin nema núna. Allt ferlið í kringum stjórnlagaþing, stjórnlagaráð, ógildar kosningar, tilnefningar og allt þetta og alltaf verið að keyra yfir hv. stjórnarandstöðuna í hverju einasta skrefi, sýnir okkur að það hefur orðið breyting á. Menn eru ekki að leita sátta eða samstöðu. Það sýnir hvað núgildandi stjórnarskrá er veik í að stöðva slíkt ofbeldi. Þess vegna hef ég lagt þessa tillögu fram.