141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Skrýtin staða er uppi í þinginu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að leita leiða til þess að koma málinu einhvern veginn fyrir vind. Ég sakna þess að flutningsmenn tillögunnar sem hér liggur til umræðu, þeir flutningsmenn sem bera ábyrgð á tillögunni um breytingarákvæði við breytingargrein stjórnarskrárinnar, séu ekki hér og tali af eldmóði fyrir tillögu sinni. Hvar eru þeir hv. þingmenn? Alveg hreint með ólíkindum er að upplifa það hér í þinginu. Fyrst sópa þeir frumvarpinu sem var komið frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem í sitja aðallega fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, út af borðinu og koma fram með þessa málamiðlunartillögu. Þeir gerðu báða hópa Vinstri grænna og báða hópa Samfylkingarinnar kolvitlausa með aðgerð sinni, svo vantar þá hér í þinghúsið til að tala af eldmóði fyrir þessu máli. Um leið og frumvarpið kom fram vissi maður að stjórnarskrármálið í heild sinni væri ónýtt, sem betur fer. Það var löngu komið í ljós að það var ekki þingfært. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru sífellt með óbragð í munni yfir málinu og vísuðu til réttlætiskenndar sinnar.

Þegar nýkjörnir formenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, auk þingmanns utan flokka, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, lögðu fram þetta frumvarp breyttist takturinn. Það átti að fara að berjast fyrir því að auðvelda það að breyta stjórnarskránni miðað við það sem nú er. Það fékk að sjálfsögðu mikla gagnrýni vegna þess að ég tel að þokkalega erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskránni svo breytingar á stjórnarskránni séu ekki eins og hver önnur veðrabrigði. Þá var brugðist við og lögð fram breytingartillaga við það ákvæði, þingmeirihlutinn hækkaður og settur inn þröskuldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru því búnar að vera stanslausar stjórnarskrárreddingar síðustu fjögur ár. Þegar ég var að læra lögfræði bar ég að sjálfsögðu mesta virðingu fyrir stjórnarskránni og að sjá þá atlögu sem er búið að gera að stjórnarskránni okkar, lýðveldisstjórnarskránni nr. 33/1944, er raunverulega þyngra en tárum taki.

Það kemur kannski ekki mikið á óvart að komið sé fyrir málinu eins og nú er, því það er löngu vitað að til þess að ganga í Evrópusambandið þarf að breyta íslensku stjórnarskránni. Íslenska stjórnarskráin hefur ekki það ákvæði í sér sem leyfir fullveldisafsal þjóðarinnar, virðulegi forseti. Því var farið af stað með langt ferli sem var talið vera þjóðþrifamál því vinstri menn halda að stjórnarskráin hafi valdið því að hér var bankahrun, hversu fáránlega sem það hljómar. Það hefur verið notað sem rök og farið var af stað á þeim forsendum að skapa þá stemningu að íslenska þjóðin þurfi stjórnarskrá svona svipað eins og krafan var með arabíska vorið þegar fólki var safnað saman úti á götum og það látið mótmæla og halda að það réði einhverju um stjórnskipan ríkjanna.

Því miður er staðan orðin sú að allir sjá að áhlaup á stjórnarskrána er ófæra og hefur alla tíð verið. Hér hafa logað rauð ljós allt þetta kjörtímabil, allt frá því að hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna. Fræðimenn, sérfræðingar í greininni, allir vöruðu við því að þetta yrði gert, að sú leið yrði farin að taka ófullburða plagg og gera það að stjórnarskrá Íslands og henda þeirri gömlu.

Virðulegi forseti. Hvaða lýðræðisríki, meira að segja vestrænu, mundi detta annað eins í hug?

Gott dómafordæmi er komið á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem var settur inn í stjórnarskrána í mikilli sátt árið 1995. Það vita raunverulega allir orðið réttarstöðu sína samkvæmt stjórnarskránni okkar þannig að hún hefur svo sannarlega staðist tímans tönn. Þau álitaefni sem risu eftir að mannréttindakaflinn var settur inn hafa verið leidd til lykta. Það er raunverulega ekki álitamál lengur hver réttur íslenskra landsmanna er gagnvart sinni stjórnarskrá.

Gleymum því ekki, virðulegi forseti, að stjórnarskrá er fyrst og fremst vörn borgaranna fyrir stjórnvöldum sem starfa á hverjum tíma. En hvað gerist hér á Íslandi? Stjórnvöld sjálf, vinstri öfgaöfl, ákveða það að breyta þessum sáttmála sér í hag. Þau ráðast að grunnstoðum sáttmálans sem við öll sem búum í þessu landi eigum að hafa að leiðarljósi og leita réttar okkar til. Það eru stjórnvöld sjálf sem ráðast að þessu með því að setja sína eigin stjórnarskrá og ætla að gera það í miklu ósætti að því er virðist.

Virðulegi forseti. Þetta gæti nú leitt til borgaramótmæla í einhverju ríki en því miður er það orðið svo að við landsmenn erum orðin nokkuð dauf fyrir yfirgangi og ofríki þessarar ríkisstjórnar. Ég held að við séum öll að hugsa það sama: Það styttist mjög í kosningar. Það eru örfáar vikur núna. Ég bið landsmenn um að sýna þolinmæði til 27. apríl.

Við erum kannski öll orðin svo máttlaus fyrir því sem þessi ríkisstjórn hefur lagt á okkur. Við erum að tala um ESB-umsóknina í mikilli ósátt. Við erum að tala um Icesave, ekki einu sinni heldur þrisvar, virðulegi forseti. Við þurftum að stóla á forsetann þá. Við erum að tala um náttúruverndarlögin. Við erum að tala um rammaáætlunina. Við erum að tala um ríkisstjórn sem ætlaði að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Allt átti þetta að fara í gegn á mjög litlum meiri hluta, því þarna voru vinstri flokkarnir komnir við stjórnvölinn. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði úr þessum ræðustól fyrir örfáum dögum að þau væru einungis hálfnuð með verk sitt, þau ætluðu að starfa á næsta kjörtímabili líka. Þá fékk ég raunverulegan kuldahroll. Þá skildi ég hvers vegna ríkisstjórnin hefur allt fram á þennan dag verið að leggja fram mál í þinginu til 1. umr. Hún ætlar sér nefnilega að reyna að halda völdum á næsta kjörtímabili. Það er kannski það sem er nokkuð óhuggulegt í þessu máli öllu saman, virðulegi forseti.

Eins og ég byrjaði ræðu mína á þá erum við þingmenn að reyna að finna einhverja lausn á þessu og ég tel bestu lausna þá sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson talaði hér um áðan; að taka allt málið og sópa því út af borðinu, taka þau brýnu mál sem liggja fyrir þinginu og sátt er um og gera þau að lögum, slíta þingi og fara út í kosningabaráttuna. Láta þannig ný stjórnvöld fást við verkefnin sem eru hér fram undan, að koma skuldugum heimilum til hjálpar, að skapa atvinnu og reyna að koma lífinu af stað á nýjan leik í þessu landi eftir fjögurra ára niðursveiflu vinstri stjórnarinnar sem hefur því miður gert einungis ógagn og hækkað skatta. Hin leiðin er sú að hleypa þessari vitleysu í gegnum þingið á mjög tæpum meiri hluta þingmanna, þá kemur í ljós hvað utanflokkaþingmenn og þingmenn Hreyfingarinnar gera í málinu, og láta reyna á neyðarhemilinn í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun frá 1944, að nýtt þing felli stjórnarskipunarlög. Það væri skemmtileg eftirskrift fyrstu vinstri stjórnarinnar sem situr heilt kjörtímabil. Það væru góð eftirmæli, virðulegi forseti.

Er það þetta sem þeir þingmenn sem leggja fram frumvarpið og þeir þingmenn sem leggja fram breytingartillögu að frumvarpinu varðandi náttúruauðlindaákvæðið vilja? Eigum við bara ekki að láta reyna á það? Er kannski orðið tímabært að það verði gert, virðulegi forseti? Í Icesave þurftum við þingmenn að lúta í lægra haldi fyrir ofríki ríkisstjórnarinnar. Forseti Íslands greip þá í neyðarhemilinn sem lagasetning hefur. Neyðarhemillinn er farinn að birtast hér í þessu máli, ef þetta heldur áfram svona marga daga í viðbót. Neyðarhemillinn verður nýkjörið þing eftir 27. apríl.

Virðulegi forseti. Kannski er það besta lausnin ef ófáanlegt er að málið verði sett til hliðar og nýtt þing taki (Forseti hringir.) við málinu og vinni það á faglegan hátt.