141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skilja svar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og ræðu hennar áðan með öðrum hætti en þeim að hún telji frumvarpið vera allsherjarsamsæri þeirra sem vilja gera breytingu á stjórnarskránni, eins og unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili. Það sé hálfgert samsæri varðandi ESB-aðildina sem Alþingi ákvað og samþykkti hér sumarið 2009.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann að því á hvaða forsendum Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á að endurskoða stjórnarskrána. Nú liggja fyrir samþykktir frá Framsóknarflokknum, bæði frá 2009 og sömuleiðis frá því núna eftir áramótin. Hvaða ástæður sér Framsóknarflokkurinn til þess að breyta stjórnarskránni, fyrst hv. þingmaður telur að ESB-aðildin sé ein af ástæðum þess að núverandi stjórnvöld, stjórnlagaráðið og þjóðaratkvæðagreiðslan, hafi komist að þeirri niðurstöðu að það beri að breyta stjórnarskránni?

Í öðru lagi langar mig til að beina spurningu til hv. þingmanns um hvort hún telji að tilgangur þeirrar umræðu sem hér á sér stað um breytingu á stjórnarskránni sé meðal annars að innleiða hér sósíalisma, eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og varaformanni Framsóknarflokksins fyrr í umræðum í dag.