141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún segir að þessu máli væri best sópað út af borðinu hjá núverandi þingi, menn kæmust að einhverri niðurstöðu um það hvernig því yrði mögulega fram haldið á næsta þingi eða tillögu í þá átt. Varðandi hitt atriðið hvort það sé orðið tímabært að virkja þennan neyðarhemil, sem svo er kallaður, er auðvitað ákveðin freisting í því. En í því er líka fólgin ákveðin áhætta. Ég tel að málið sé það mikilvægt að það sé ekki þeirrar áhættu virði og við hér í þinginu eigum að hafa þá ábyrgð að hleypa því ekki í þann farveg.

Mig langar að varpa spurningu til hv. þingmanns varðandi þær hugmyndir sem hv. þm. Pétur Blöndal kom fram með áðan sem eru í raun mjög stíf túlkun, getum við sagt, á því hvernig við getum staðið að breytingum á stjórnarskránni í framtíðinni. Í fyrsta lagi spyr ég í þessu fyrra andsvari hvort ekki sé nauðsynlegt, ef við á annað borð hyggjum á breytingar á þessu ákvæði, að þær séu í þeim anda sem hv. þm Pétur Blöndal kynnti? Þetta eru hugmyndir sem hann hefur varpað fram, þær hafa ekki verið lagðar fram formlega, en með þeim er í raun ítrekað hversu mikilvægt það er að vanda til vinnu við undirbúning á breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Ætti málið ekki að vera á þessu (Forseti hringir.) bili, þessu þrönga bili, sem hann varpaði hér fram hugmyndum um, vera í þeim farvegi?