141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil, í ljósi þess sem hv. þm. Jón Gunnarsson segir, fara aðeins yfir vinnubrögðin bara varðandi þetta frumvarp um breytingu á breytingargrein stjórnarskrárinnar sem sýnir hvað vinnubrögðin hjá meiri hlutanum eru ótrúlega slæm og ófagleg.

Fyrsta dæmi. Þessi meiri hluti hefur breytt auðlindaákvæðinu að minnsta kosti fjórum sinnum bara eftir áramót. Lagt er fram frumvarp um breytingu á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er búið að breyta því öllu. Það er búið að breyta hlutfalli þingmanna. Það er búið að setja inn þröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og einu í viðbót er búið að breyta, ákvæðið átti að vera tímabundið í fjögur ár en hefur núna breyst í að vera ótímabundið. Bara á nokkrum dögum er búið að gjörbylta með breytingartillögu því frumvarpi sem kom fyrst fyrir þingið.

Hvað er fólk að hugsa? Þetta á að vera upptakturinn að breytingarákvæði í stjórnarskrá sem er æðst allra laga. Vinnubrögðin eru algjörlega fyrir neðan allar hellur. Þess vegna er ég svo fegin því að hér séu þingmenn að berjast á móti þessu, því þetta er ekkert annað en áhlaup á stjórnarskrána. Það er ekki hægt að tala um það öðruvísi.

Þá spyr maður sig: Hver er ástæðan fyrir því að breyta þurfi breytingarákvæði stjórnarskrárinnar? Jú, rökin eru þau að ráðast þurfi hratt í breytingar á stjórnarskránni til að tillögur frá stjórnlagaráði, sem hafa tekið 500 breytingum, nái sem fyrst inn í stjórnarskrána því að eftir fjögur ár þegar möguleiki er á að breyta stjórnarskránni næst, í þarnæstu kosningum, séu tillögurnar orðnar sex ára gamlar. Þetta eru einkennileg rök því stjórnarskrá á að geta staðist (Forseti hringir.) tímans tönn og stjórnarskráin okkar er að verða 70 ára. Ef tillögur stjórnlagaráðs geta ekki beðið að einhverju leyti (Forseti hringir.) í sex ár, er þá mikið í þær spunnið?