141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ræðan var mjög tvískipt og líka rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að við höfum verið miklir samherjar í mjög mörgum málum, en líka andstæðingar í einhverjum. En það er í miklu fleiri málum þar sem við höfum verið mjög miklir samherjar. Ég held ég geti fullyrt að báðar erum við umdeildar, en það er líka af því við viljum báðar breyta miklu. Ég ætla líka að leyfa mér að segja að ég held að við höfum báðar hjartað á réttum stað, almennt séð, og ég þakka hv. þingmanni fyrir gott samstarf hér í þinginu.

Varðandi spurninguna þá hef ég verið mjög fylgjandi því ferli sem stjórnarskráin hefur verið í á síðustu árum. Ég hefði viljað ganga lengra í upphafi og hafa bindandi stjórnlagaþing. Þá hefðum við ekki verið með þetta mál hér í þinginu í talsverðu hagsmunatogi, sem er eðlilegt, heldur hefðum við getað afgreitt það betur með sérstöku þingi sem hefði verið kosið einungis til að fara yfir þetta mál á bindandi hátt, og svo hefði þjóðin komið að því að lokum að segja já eða nei við hinni nýju stjórnarskrá.

Menn hafa hins vegar mismunandi skoðanir á ferlinu, það á við um Framsóknarflokkinn eins og aðra flokka, að ég held, en ég hef stutt þetta ferli. Ég taldi að þjóðaratkvæðagreiðslan væri mikilvæg og ég tel að hún hafi verið mikilvæg. Hún sýndi ákveðinn anda og ákveðna afstöðu hjá þeim sem tóku þátt í henni til mikilvægra mála og skapaði þar af leiðandi þrýsting á þingið. En það voru ekkert allir sammála því að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu af mínum flokksfélögum, en þannig er það bara með mörg mál.