141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:11]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hv. þingmaður vék sér fimlega undan því að svara spurningunni um hvenær Framsóknarflokkurinn hafi orðið viðskila við þessa stefnu sína, því að eins og ég rakti hafa forustumenn flokksins talað einum rómi og öðrum en hv. þingmaður hefur gert hér á undanförnum árum.

Hún sagði sem svo, hv. þingmaður, að við gætum ekki klárað þetta, staðan væri þessi og við yrðum að viðurkenna þá staðreynd.

Það má segja að formenn stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar hafi stigið fram og rétt út sáttarhönd einmitt á þeim stað sem hv. þingmaður skildi við málið, að staðan væri sú. Nú er svo komið að búið er að þrengja þetta mál, stjórnarskrármálið, niður í kjarna sinn, annars vegar hvernig hægt er að fylgja málinu áfram yfir á næsta kjörtímabil með því að setja niður sérstaka milliþinganefnd og setja inn í stjórnarskrána ákvæði sem gerir þinginu kleift að leggja fyrir þjóðina, til endanlegrar ákvörðunar, breytingar á stjórnarskrá og setja í stjórnarskrá ákvæði um auðlindir í þjóðareign.

Ég hef saknað þess að heyra ekki meiri samhljóm við þá kröfu hér í þessum sal frá Framsóknarflokknum. Sá síðasti sem talaði um það einmitt í dag kallaði ákvæði eins og það er núna dæmi um kommúnisma eða marxisma eða eitthvað slíkt. Ég hlýt þess vegna að endurtaka þessa spurningu mína: Á hvaða vegferð er Framsóknarflokkurinn staddur í þessu? Hvar gafst hann upp?