141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem var flutt af þremur hv. þingmönnum, formönnum stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Í raun og veru er málið tiltölulega einfalt. Það snýst um að gera breytingar á 79. gr. núgildandi stjórnarskrár með það að markmiði að hægt verði að breyta henni án þess að boða til kosninga. Setja á inn bráðabirgðaákvæði til fjögurra ára. Það er markmið þessa frumvarps.

Öll þekkjum við hvers vegna frumvarpið var lagt fram. Það var vegna þess, eins og stundum er sagt til sjós, að hér var allt í skrúfunni og allt stefndi í óefni. Þegar maður fer yfir og les, sem ég gerði áðan, og eins þegar hv. 1. flutningsmaður, hv. þm. Árni Páll Árnason, mælti fyrir frumvarpinu þá kom þetta berlega í ljós. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í ræðu hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Tillögur okkar miða því að þessu tvennu, að gerð verði breyting á stjórnarskipunarlögunum á þann veg að sérstakt bráðabirgðaákvæði bætist við sem gildi til 30. apríl 2017 og geri mögulegt að breyta stjórnarskránni án þess að þingkosningar séu á milli staðfestingar fyrra og seinna þings eins og nú er.“

Síðan langar mig að vitna í hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur, sem segir, með leyfi forseta:

„Sem einn af flutningsmönnum þessa máls vil ég gjarnan nefna nokkur atriði við 1. umr. Eins og komið hefur fram í umræðunni er verið að leggja fram tiltölulega einfalt frumvarp sem snýst um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar …“

Nú er staðan sú, virðulegi forseti, að enn er allt í skrúfunni og menn búnir að draga athyglina frá því sem máli skiptir. Þess vegna geri ég alvarlegar athugasemdir við það eins og ég gerði í fyrstu ræðu minni hér um þetta mál. Ég lít svo á að sú breytingartillaga sem lögð er fram af fjórum hv. stjórnarliðum þar sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er 1. flutningsmaður sé hugsanlega lögð fram með það markmið að eyðileggja málið og tillagan sé notuð til pólitísks heimabrúks til að fara með í kosningabaráttuna og geta sagt að vondu mennirnir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hefðu komið í veg fyrir þær breytingar sem hér um ræðir á svokölluðu auðlindaákvæði. Þetta þykir mér mjög ódrengilegt og í raun og veru óheiðarlegt, sérstaklega gagnvart formönnum stjórnarflokkanna. Þessi breytingartillaga gengur auðvitað þvert á tilganginn og hugsunina á bak við frumvarpið sem formenn stjórnarflokkanna ásamt öðrum hv. þingmanni lögðu hér fram og hefur gert að verkum að málið er aftur komið í strand og í raun og veru er allt í skrúfunni.

Það gefur augaleið að þegar menn koma hingað inn með breytingartillögur við 2. umr. og setja allt upp í loft þá er ekki útilokað að sumir hv. stjórnarþingmenn, jafnvel nokkrir, leggi fram annars konar breytingartillögur við 3. umr. frumvarpsins, sem er takmörkuð eins og við þekkjum og gæti tekið einn dag eða svo, og kæmu með heilu bálkana til viðbótar. Hv. þingmenn hafa auðvitað mismunandi skoðanir á því hvaða breytingar þeir telja mikilvægast að komi inn í stjórnarskrá landsins við afgreiðsluna hér. Það gætu komið inn heilu kaflarnir af þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Svona er staðan núna. Það versta er að það er ekkert trúnaðartraust á milli manna sem er auðvitað mjög mikilvægt. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ef það á að leysa úr þessu máli og einhver meining er hjá hv. stjórnarliðum í að styðja við bakið á formönnum sínum til þess að koma málinu í höfn þá er bara ein leið til þess. Hún er sú að þessi breytingartillaga verði dregin til baka. Það er sérkennilegt að hún skuli vera frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna, alveg hreint með ólíkindum að hún skuli vera lögð fram. Það verður að draga hana til baka og trúnaður verður að ríkja um að ekki komi fleiri breytingartillögur við endanlega afgreiðslu þessa máls. Öðruvísi leysist ekki málið, það er hinn blákaldi veruleiki hvað sem mönnum finnst um það.

Það getur vel verið að einhverjir hv. stjórnarþingmenn vilji ekki að málið verði leyst og að þessi sáttatillaga forustumanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar dagi hér uppi og verði að engu. Það getur vel verið að sumir hv. stjórnarþingmenn vilji það. Það ætti þá að vera skýrt og koma hér fram.

Þó að auðvitað sé ekki hægt að binda hv. þingmenn og taka af þeim þann rétt að leggja fram breytingartillögur, ég held því ekki fram, þá þarf að nást traust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að þær tillögur sem kæmu til viðbótar yrðu ekki studdar svo að þær færu ekki í gegn. Öðruvísi kemst málið sem forustumenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lögðu hér upp með ekki í höfn, öðruvísi gerist það ekki.

Ég hef tekið eftir því í umræðunni að margir hv. stjórnarliðar hafa komið hingað upp og gert sig dálítið breiða gagnvart auðlindaákvæðinu sem hér um ræðir og stillt því upp á þann máta sem ég óttast að þeir ætli að gera í kosningabaráttunni. Það er auðvitað mjög auðvelt að svara fyrir það því að þessi útfærsla á auðlindaákvæðinu í stjórnarskránni fór aldrei í neina þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekkert annað en skrumskæling og vitleysa. Það var bara talað um hvort menn vildu setja náttúruauðlindaákvæði í stjórnarskrá, þjóðin var spurð að því, og auðvitað eru allir sammála um það. Með hvaða hætti það verður skiptir verulegu máli eins og kemur fram núna í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem er þó ekki nema búin að breyta einu orði en það breytir mjög miklu að gera það.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir því að þeir hv. stjórnarliðar sem eru ekki sammála mér um það hvernig hægt er að leysa málið komi í andsvör og bendi mér á aðrar leiðir. Mín skoðun er að eina leiðin til þess að koma málinu í höfn, eins og frumvarpið var lagt fram af formönnum stjórnarflokkanna, sé að draga þessar vitlausu breytingartillögur frá formönnum þingflokkanna til baka og ná þeim trúnaði á milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem þarf að vera til þess að hægt sé að afgreiða málið við 3. umr. Það gefur augaleið.

Ég hef hins vegar tekið eftir því hjá mörgum hv. stjórnarþingmanninum, þó að þeir hafi reyndar ekki allir svarað því hefur það komið mjög skýrt fram hér, að þeir telja gjörsamlega fráleitt og algjörlega útilokað að taka nokkurn þátt í því að afgreiða breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Ég er sammála þeim um það og það er auðvitað fyrsti þröskuldurinn sem þarf að stíga yfir. Ég tel að nánast sé búið að komast yfir hann. Þess vegna er mikilvægt að stíga næsta skref. Það liggur ljóst fyrir hvert markmiðið er, það kemur fram í frumvarpinu. Markmiðið er að reyna að koma málinu inn á næsta kjörtímabil með þeim breytingum sem þar eru lagðar til á 79. gr. Ég tel að ef hv. þingmenn einsetja sér að klára málið eins og það var lagt fram og mælt var fyrir því af bæði hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hæstv. menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur væri hægt að koma því í höfn því að það er ekki langt á milli manna.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hafði dálitlar efasemdir um þröskuldinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En eftir að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði gert tillögu um að lækka hann og hækka í raun og veru þrepið sem snýr að samþykktum hér í þinginu og eftir að hafa hlustað á þær umræður sem fóru fram um það hef ég minni efasemdir en ég hafði í upphafi.

Síðan kemur hv. þm. Pétur Blöndal hér í dag með enn eina tillöguna sem er lausnamiðuð eins og hans er von og vísa, enn eina útfærsluna sem ætti að ná mönnum saman. Ég tel því að ef við ætluðum að ná samstöðu um þetta frumvarp eins og það var lagt fram og klára það þá væri það ekki mjög flókið mál. En þá verðum við fyrst að leysa úr vandanum með því að draga þessar vitlausu tillögur til baka og tryggja hins vegar að menn nái trúnaði og trausti um að ekki komi fleiri breytingartillögur á milli 2. og 3. umr.