141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og nálgun hans og ekki síst vil ég nota tækifærið — af því að nú fer hver að verða síðastur til að koma hér í pontu sem hyggst ekki halda áfram í pólitík — og þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið á þessum fjórum árum. Það hefur ætíð verið svo að ef maður hefur skipst á skoðunum við hv. þingmann hafa þær umræður verið á málefnalegum grunni.

Þess vegna þykir mér vænt um þá nálgun sem hv. þingmaður hefur á það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og birtist í orðum hans. Við erum til dæmis sammála um að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur gerði lítið fyrir málið og hjálpaði ekki til við að finna farsæla lausn á því sameiginlega verkefni, markmiði okkar allra að við eignumst nýja, góða stjórnarskrá. Við erum kannski ekki alveg sammála um einstakt orðalag eða áherslur en öll viljum við held ég eignast góða stjórnarskrá fyrr en síðar.

Mig langar að velta upp með hv. þingmanni — vegna þess að hann telur rétt eins og ég að haldi menn áfram að vinna á grundvelli frumvarpsins og nefndarálitsins sem kom frá hv. nefnd sé hægt að finna flötinn, flöt samstarfs og sátta — í þessu sambandi hvernig hann mundi telja skynsamlegast að vinna málið áfram, hvar hann sjái leiðina út úr þeirri klemmu sem við erum stödd í með málið í dag og hvernig hann mundi þá vilja sjá orðalag breytingartillögunnar og hvernig hann mundi vilja sjá orðalag þingsályktunartillögunnar. Hvernig gæti það birst svo hægt væri að fylgja málinu áfram þannig að við næðum sameiginlegu markmiði okkar um að eignast nýja og betri stjórnarskrá?