141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og hlý orð í minn garð. Mér finnst við reyndar eiga mjög góða stjórnarskrá, en hvað um það, við skulum ekki staldra við það, það er ekki aðalatriði málsins í þessu af því að við erum að fjalla um þetta einstaka mál hérna hvort við viljum færa og breyta breytingarákvæðinu í stjórnarskránni tímabundið í fjögur ár. Ég hef verið að velta því fyrir mér í umræðunni, og ég hef hlustað vel á hana, hvort það væri ekki bara skynsamlegri aðferð til að breyta stjórnarskránni. Ég hef staldrað dálítið við það.

Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að ég hrökk aðeins við þegar ég sá að sá þröskuldur sem var í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þátttökuþröskuldurinn, var færður niður af nefndinni. Ég hlustaði á hv. þingmann mæla fyrir nefndarálitinu, hv. þm. Magnús Orra Schram, framsögumann málsins, og ég verð að viðurkenna að ótti minn hvarf dálítið við það, eftir að hafa heyrt þau rök sem ég hafði ekki hlustað eftir fyrst eða kveikt á. Síðan kom hv. þm. Pétur Blöndal í dag með enn eina útfærsluna, sem sagði að ef hærri þröskuldur væri og mundi ekki nást, þá væri hægt að samþykkja málið á næsta kjörtímabili eða á næsta þingi.

Ég tel að flötur sé á þessu ef menn vilja setjast yfir málið og leysa það eins og það er lagt upp. Um leið og við komum með einhverjar krækjur á það, hvort sem það er tillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur eða breytingartillagan frá þingflokksformönnunum, þá er það auðvitað bara til þess að skemma málið. Ég stend á því fastar en fótunum að annaðhvort eyðileggst málið og ekkert verði úr því — það getur vel verið að sumir vilji það, ég hef reyndar ekki áhuga á því — eða þá að menn einbeiti sér að því hvernig hægt er að leysa málið. Ég tel að það sé hægt.

Þetta snýst fyrst og fremst um að menn þurfa að ná ákveðnum trúnaði og tryggja það að menn komi ekki með breytingartillögur milli 2. og 3. umr., það verður að bara vera skýrt markmið, það er mikilvægt að hafa það þannig. Þá tel ég ekki flókið að útfæra það, hvort það eru eitt, tvö, þrjú eða fimm prósent til eða frá. Ég held að menn (Forseti hringir.) nái saman um það ef þeir ræða efnislega um það mál sem hér er undir.