141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég er sammála þeirri nálgun sem hann klykkti hér út með í andsvari sínu.

Mig langar að leiða hugann að öðru. Nú hefur frumvarp formannanna þriggja, hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar, þann svip að mér finnst það vera ákveðin sáttatillaga. Við getum kannski deilt um það. En mér finnst miðað við þá stefnu sem stjórnarflokkarnir hafa verið að reka í þessu máli, allt frá því að tillagan leit dagsins ljós, við hafa getað litið á hana sem sáttatillögu. Að minnsta kosti gáfu flokkarnir þó nokkuð mikið eftir frá sinni fyrri nálgun í málinu.

Ef við ætlum að reyna að innleiða sáttapólitík, ef við ætlum í raun og veru að bæta andrúmsloftið og vinnubrögðin í þessum sal og á milli stjórnmálaflokka, stjórnmálaforingja, stjórnmálamanna, þá langar mig eiginlega að velta upp þeim punkti með hv. þingmanni hvort það sé ekki mikilvægt þegar svona útspil kemur að menn reyni að nálgast hver annan og reyni að taka í þessa sáttarhönd. Vegna þess að fari menn illa með þetta tækifæri, þó svo að við þurfum kannski að breyta orðalagi, breyta áherslum, sníða einhverja agnúa af, stilla skrúfurnar, þá vil ég bara segja það, svo að það fari nú inn í bækurnar, að mér er gríðarlega mikilvægt að stjórnmálaforingjarnir nái samkomulagi og við missum hér ekki allt í hund og kött á lokadögum þessa þings, sem yrði mjög leiðinlegur svipur fyrir stjórnmálamenninguna. Þá held ég að mikilvægt sé að aðilar reyni að nálgast einhvers staðar mitt á milli þeirra sjónarmiða sem þeir hafa áður verið með í þessari umræðu síðustu fjögur ár. Þar með er ég að sjálfsögðu að skora á hv. þingmann að koma nú með flokk hans með mér í það verkefni að reyna að finna sameiginlega millileið á milli ólíkra sjónarmiða sem hafa verið í málinu allt þetta kjörtímabil. En nú er komið útspil (Forseti hringir.) þar sem menn hafa klárlega reynt að nálgast, hvort flokkur viðkomandi þingmanns geti ekki komið til móts við það sjónarmið.