141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti verið mjög sammála því sem hv. þingmaður sagði þegar hann vitnaði í McKinsey-skýrsluna. Það sem ég var að segja fjallar í raun um það að við þurfum að auka fjölbreytnina og horfa til að fleiri íslensk fyrirtæki geti staðið að fjölbreyttari útflutningi. Við séum ekki að horfa á orkugeirann eins og gert hefur verið til þessa, en að hluta til munum við auðvitað áfram horfa til þess að byggð séu orkuver og síðan framleiðslufyrirtæki sem flytja út sína vöru.

Hvað erum við að horfa á? Hver hefur þróunin verið? Hvaða fyrirtæki eru það sem eru að útvíkka starfsemi sína? Ég vitnaði áðan í orð forstjóra Mannvits sem hefur byggt upp starfsemi sína á grunni þjónustu við t.d. stóriðjufyrirtækja á Íslandi. Það fyrirtæki er nú farið að vinna um allan heim. Við erum að horfa á þetta gerast í (Forseti hringir.) jarðvarmanum og í kringum sjávarútveginn. Ég nefndi áðan fyrirtæki í bátasmíði í Hafnarfirði þar sem starfa tugir manna. Ég nefndi áðan Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar sem hefur (Forseti hringir.) tífaldað starfsmannafjölda sinn frá árinu 2007. Tífaldað umsvif sín frá hruni nánast, 450 starfsmenn. (Forseti hringir.) Þessi fyrirtæki byggja öll sinn grunn á því að hafa þjónustað annaðhvort stóriðju eða íslenskan sjávarútveg, en eru síðan komin á fullt úti um allan (Forseti hringir.) heim í þessari starfsemi. Það er nákvæmlega það sem er verið að vitna til í McKinsey-skýrslunni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutími er ein mínúta í síðari umferð og biður þingmenn um að virða hann.)