141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég verði ekki sakaður um málþóf þótt ég fari í andsvar við minn flokksmann. Málið er að hann gat nefnilega um dálítið merkilegt. Þegar menn vilja stöðva mál, ég man eftir því í Icesave þegar ég og Höskuldur Þórhallsson ræddum hér á víxl um Icesave til að reyna að bjarga þjóðinni frá því að greiða þau ósköp, var það í 2. umr. Í 3. umr. er málið dautt. Þá er ekki hægt að stöðva það lengur. Þetta held ég að menn ættu að hafa í huga. Þegar hv. þingmaður spurði eftir lausnum gæti ein lausnin verið fólgin í því, frú forseti, að sett yrði bráðabirgðaákvæði í þingsköp um að ekki skuli breyta stjórnlagamáli í 3. umr.

Það sem stjórnarandstaðan óttast og það með réttu er að í 3. umr. komi fram fjöldi breytingartillagna hist og her og menn samþykki þær. Það er þetta sem menn óttast.

Það er mjög margt gott í tillögum stjórnlagaráðs, en líka mjög margt sem við teljum vera hættulegt og hefur ekki fengist almennilega rætt. Ég legg því til að menn skoði þann möguleika að setja bráðabirgðaákvæði í þingsköpin til að búa til traust fyrir minni hlutann, eitthvað sem hann getur treyst. Menn treysta ekki lengur orðum, það er bara þannig.

Hér koma fram breytingartillögur við tillögur formanna flokkanna sem sýna að það er ekki eining innan t.d. Samfylkingarinnar. Það er ekki eining. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hver á fætur öðrum og halda ræður eins og þeir séu í málþófi. Það er ekki eining innan Samfylkingarinnar.