141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að sá þröskuldur eigi að vera hár og ég held að slíkur þröskuldur hefði getað leitt af sér árangursríkari vinnu á þessu kjörtímabili en raun ber vitni. Ég held að það hefði getað sett þingið í þá stöðu að þurfa að vinna að víðtækari sátt um breytingar á stjórnarskránni. Ég vil alla vega taka það með mér sem lærdóm og reynslu af vinnu okkar á þessu kjörtímabili að við hugum vel að því við breytingar á stjórnarskránni, hvort sem við náum saman um þetta ákvæði núna eða á næsta kjörtímabili, að menn hafi þá reynslu að leiðarljósi og reyni að fyrirbyggja að svona ágreiningur endurtaki sig.

Hv. þingmaður vitnar til ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar fyrr í dag um að auðlindaákvæðið sem lagt var fram geti leitt til sósíalísks þjóðfélags. Það eru hans orð, virðulegi forseti, ég heyrði ekki ræðu hv. þingmanns svo ég get ekki svarað fyrir hana og ætla ekki að leggja mat á hana. Þetta er þó ákvæði sem við skulum hafa í huga að allir stjórnmálaflokkar hafa lýst sig reiðubúna til þess að vinna að breytingum á og þarf að vanda mjög til þess orðalags sem verður valið þar. (Forseti hringir.) Ég hef í sjálfu sér ekki látið mér detta í hug að menn hafi einhverjar mjög sósíalískar hugmyndir um að þær breytingar á stjórnarskránni eigi að breyta samfélaginu svo mikið. Mig hefur þó undrað oft og tíðum hvað mönnum liggur mikið á og hafa viljað taka stóran bita í einu. Það er alveg ótrúlegt að menn skuli ekki hafa fallist á það miklu fyrr að taka þetta í fleiri skrefum.