141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mig langar enn og aftur skora á þingheim að við einhendum okkur í að breyta þingsköpum. Á þinginu hefur verið starfandi sérstök undirnefnd sem heitir þingskapanefnd og okkur var falið að laga þingsköpin okkar þannig að við lendum ekki í svona stöðu eins og við erum í í dag þar sem þingið er í raun óstarfhæft. Mig langar að spyrja hvort það sé einhver þingmaður hérna inni sem … [Kliður í þingsal.] Afsakið, er hægt að hafa einn fund? Það er truflandi þegar fólk talar saman þegar maður er að reyna að einbeita sér.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Mig langar að skora á þingmenn, þingskapanefnd og forseta sem á sæti í nefndinni að við fundum í hádegisverðarhléi í dag og afgreiðum í það minnsta það í þingsköpum sem tryggir að við séum ekki í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Jafnframt eru mjög mikilvæg atriði sem ég hef haft umsjón með að leggja fram til að laga aðbúnað þingmanna, veð og aðgengi almennings að því sem er að gerast á Alþingi. Mig langar að heyra hvort einhverjum fleiri þingmönnum finnist mikilvægt að við bæði lögum þingsköpin og setjum okkur siðareglur sem hafa setið fastar í forsætisnefnd.