141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Vorið 2009 blasti við að ef ekkert yrði að gert yrði Ísland efnahagslega gjaldþrota. Það var því eitt af fyrstu verkum nýkjörins þings sumarið 2009 að opna fjárlög þess árs og raða þeim upp á nýtt, afla tekna og reyna að draga úr útgjöldum til að forðast gjaldþrot. Í dag er litið til þess verks sem eins þess mikilvægasta sem gert var til að bjarga Íslandi frá þroti.

Eðli málsins vegna var erfitt að fara inn í fjárlög á miðju fjárlagaári til að draga úr útgjöldum en fyrstu aðgerðirnar miðuðust að því að afla tekna. Meðal þess sem þá var reynt að gera var að ná til stóriðjunnar á Íslandi, fá stóriðjuna til að leggja meira af mörkum til samfélagsins í ríkissjóð en gert hafði verið á undanförum árum. Þá kom það í ljós sem reyndar allir vissu, að þessi fyrirtæki voru vel varin af sterkum og góðum samningum sem fyrrverandi stjórnvöld höfðu gert við þau sem ollu því að það var ekki nokkur leið að fá þau til að leggja meira af mörkum í formi tekjuskatts, skattgreiðslna, en þeim bar að gera samninganna vegna. Þetta var eitt.

Í öðru lagi kom fram skýr vilji þessara fyrirtækja um að þau hefðu hvorki félagslega skyldu né aðra til að rétta þessari þjóð hjálparhönd sem þá var í miklum erfiðleikum. Við það stóðu þau.

Í þriðja lagi, og það sem verra var, tóku íslenskir stjórnmálamenn, m.a. hér í þessum sal, undir með þessum fyrirtækjum, vörðu þau með kjafti og klóm gegn öllum aðferðum og tilraunum stjórnvalda til að reyna að fá þau til að leggja meira af mörkum.

Í hólfum þingmanna er núna skjal sem ber heitið „Áhugaverðar staðreyndir um íslenskan áliðnað“. Í þessu skjali er hvergi getið um það að íslenskur áliðnaður (Forseti hringir.) hafi komið sér undan greiðslum í skjóli samninga og skjaldborgar sem fyrrverandi stjórnvöld slógu um fyrirtækin gegn því að þau mundu leggja meira af mörkum inn í samfélag sem var á hraðri leið í gjaldþrot á þessum tíma. (Forseti hringir.) Samt sem áður tókst að bjarga Íslandi frá þroti en fréttir undanfarinna daga, umfjöllun í fjölmiðlum, ættu að vekja fólk til umhugsunar, m.a. í þessum sal, um að gera ekki slíka samninga.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann sem er tvær mínútur undir þessum lið og biður hv. þingmenn um að virða hann.) (Gripið fram í: Nei, láttu nú framsóknarmann …)