141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hvetur okkur til að setja okkur reglur. Við getum sett okkur hvaða reglur sem við viljum í þessu þingi til að starfa eftir en aðalatriðið er vinnubrögðin, hvernig við ætlum að vinna hér. Minni hlutinn er ásakaður um að stunda eitthvert málþóf í stjórnarskrármálinu en staðreyndin er sú að óeining innan stjórnarflokkanna ræður því að það mál er ekki til lykta leitt á þinginu, eins og endurspeglast best í þeim breytingartillögum sem komið hafa til þingsins um þetta mál frá þingmönnum úr stjórnarmeirihlutanum.

Það er áhugavert hvernig vinstri menn reyna að rífa niður stóriðjuna og orkufrekan iðnað í þessu landi (Gripið fram í.) um þessar mundir. Þessi fyrirtæki eru tortryggð núna þegar líður að kosningum en staðreyndin er sú að þau borga gríðarlega háar fjárhæðir til íslensks samfélags. Og var ekki (Gripið fram í: Ha?) gerður samningur við álfyrirtækin í landinu um að fyrir fram greiða gjöld til íslenska ríkisins þegar illa stóð á? Þau tóku vel í það og tóku þátt í þeim leik með okkur. (Gripið fram í: Já, …) [Kliður í þingsal.] Það er mjög mikilvægt að menn halli (Gripið fram í.) ekki réttu máli þegar talað er um framlög þessara mikilvægu atvinnugreina til íslensks samfélags. (Gripið fram í.) Hv. þm. Björn Valur Gíslason kallar eftir því að hér séu ekki gerðir samningar í þeim anda sem voru gerðir við þessi fyrirtæki á sínum tíma. En hvaða mál liggja fyrir þessu þingi flutt af forustumanni Vinstri grænna? Er það ekki mál um stóriðju? Er eitthvað að finna um nýjar leiðir í samningum þar hjá þessari ríkisstjórn? Er að finna einhverjar aðrar leiðir en farnar hafa verið áður? (Gripið fram í: Allt annað.) Já, það er að finna aðrar leiðir, nefnilega ívilnanir í þeim frumvörpum sem eiga sér ekki fordæmi í fyrri ívilnunum gagnvart stóriðju á Íslandi. (Gripið fram í.) Það er að finna ívilnanir gagnvart (Forseti hringir.) stóriðjufrumvarpi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem ekki eru fordæmi fyrir þegar samið hefur verið við (Forseti hringir.) orkufrek fyrirtæki á Íslandi. (Gripið fram í.) Þetta fer fyrir brjóstið (Forseti hringir.) á þessu fólki hérna. Við skulum ekki halla hér réttu máli. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Nei, …) Við skulum horfa á stöðuna eins og hún er. (Forseti hringir.) Þetta fólk fer á taugum þegar staðreyndir málsins eru leiddar fram. Ég held að við ættum í þessu þingi (Forseti hringir.) núna að fara að beita öðrum vinnubrögðum. (Forseti hringir.) Hér erum við á síðustu dögum þingsins. Beitum ekki vinnubrögðum sem auka á óvirðingu þingsins á þessum síðustu dögum. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: … eyðum við tíma …) [Kliður í þingsal.]