141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um annað mál en úr því að hv. þm. Mörður Árnason tók það að sér að vera í hlutverki auglýsingadömu í upphafi fundar fyrir Framsóknarflokkinn verð ég að tala um það og þakka fyrir.

Þingmaðurinn sagði að framsóknarmenn vildu ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá en ég veit að hann og fleiri samfylkingarmenn eru sérfræðingar í kosningastefnuskrám og stefnuskrám Framsóknarflokksins til margra ára, jafnvel áratuga. Ef þingmaðurinn hefði kynnt sér þær í alvöru vissi hann að það er búið að vera á stefnuskrá framsóknarmanna mjög lengi. Við höfum ætíð talað fyrir því að breyta stjórnarskránni og setja auðlindaákvæði inn í hana. (Gripið fram í: Nú?) [Kliður í þingsal.]

Það er með þingmanninn eins og fleiri góða þingmenn hér inni, það er talað eins og enginn sé morgundagurinn. Svo virðist sem þingmenn þeirra flokka sem verða fyrir náttúrulegri fækkun á þingi og munu ekki koma aftur að afstöðnum kosningum ætli að halda málþófi sínu sjálfir fram að kosningum. Það er fagnaðarefni að þeir ætli að halda í starfið svo lengi.

Sannleikurinn er sá að frá upphafi þessa kjörtímabils hefur Framsóknarflokkurinn lýst sig reiðubúinn að koma að samstarfi (ÁI: Já, í upphafi.) við vinnu stjórnarskrárinnar, og allt þetta kjörtímabil, að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Nú er starfstími þingsins liðinn. Í janúar lögðum við fram formlega beiðni um að ríkisstjórnarflokkarnir mundu ganga til samstarfs við okkur framsóknarmenn þannig að þetta brýna hagsmunamál fengi framgang fyrir kosningar. Við því varð ríkisstjórnin ekki og við sitjum uppi með þetta klúður í dag. En það er ekki þar með sagt að við ætlum að kokgleypa auðlindaákvæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Við viljum setja inn auðlindaákvæði sem tryggir rétt þjóðarinnar gegn ásókn (Forseti hringir.) erlendra aðila í nýtingarrétt auðlindanna. Hér fór allt af hjörunum í síðustu viku hjá þingmönnum Vinstri grænna þegar við (Gripið fram í.) bentum á það (Forseti hringir.) og vildum að það yrði tryggt.