141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir um það bil hálfum mánuði átti ég samtal við hæstv. innanríkisráðherra þar sem ég spurði hann hvort það lægi fyrir í ráðuneytinu að koma á síðustu dögum þingsins með nýtt frumvarp eða verklagsreglur sem þyrfti atbeina þingsins til að hjálpa fólki sem er að missa húsnæðið ofan af sér. Jafnframt átti ég samtal við hæstv. velferðarráðherra um sömu hluti. Því miður kom í ljós að það var enginn vilji til þess. Á fjölmennum fundi Hagsmunasamtaka heimilanna í Stapanum í Reykjanesbæ í gærkvöldi kom fram sú eindregna ósk og var samþykkt í lok fundarins að vísa erindi til stjórnvalda. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja þingheim, stjórnarliða, hæstv. ríkisstjórn og velferðarnefnd til að taka þetta mál upp. Ef við ætlum að vera hér áfram til að fjalla um hin og þessi mál eru þetta þau brýnu mál sem liggja mest á fólkinu í landinu, ekki síst því fólki sem er að missa ofan af sér.

Það er augljóst að heimilin eru undirstaða efnahagslífsins, atvinnulífsins og samfélagsins og þau eigum við fyrst og fremst að verja í staðinn fyrir að karpa hér um alls kyns pólitísk mál. Við æpandi þingmenn sem ráðast á aðra þingmenn og stefnuskrár annarra flokka vil ég segja: Skoðið stefnuskrá ykkar eigin flokka, skoðið innihald þeirra frumvarpa sem þið komið fram með áður en þið farið að æpa að öðrum um að þeir gangi erinda einhverra undarlegra hluta. Forgangsröðum rétt, tökum heimilin fyrst.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn, hv. velferðarnefnd og stjórnarliða til að nota tækifærið á næstu dögum, ef við verðum hér fram yfir páska eða hvað það nú verður, til að taka á þessum málum. Það eru þau mál sem brenna mest á heimilunum og fólkinu í landinu (Forseti hringir.) en ekki þau mál sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn er að reyna að berja hér í gegn með illu eða góðu.