141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er nánast skondið að hlusta á álkórinn hefja upp raust sína hér í störfum þingsins eins og hefur verið í morgun, ekki síst vegna þess að á síðustu dögum og vikum hefur kastljósi verið beint af afleiðingum stóriðjustefnunnar, fyrst á lífríki Lagarfljóts sem er að deyja og nú á skattleysi og skattfríðindi sem álverin njóta og þar með áhrif þeirra og stóriðjustefnunnar á lífskjör á Íslandi.

Helguvíkursamningurinn frá 2009 hefur verið nefndur í þessu samhengi en þar var stigið mun stærra skref en áður í skattfríðindum þegar hámark tekjuskatts var sett í 15% en ekki 18% eins og var með Reyðarfjörð og Grundartanga. Við fulltrúar Vinstri grænna á Alþingi á þeim tíma gagnrýndum þetta harðlega. Og það er nauðsynlegt að taka fram vegna þess að Vinstri grænir áttu aðild að og voru í minnihlutastjórn á Alþingi að flokkurinn studdi ekki fjárfestingarsamning í Helguvík heldur lagðist eindregið gegn honum og við greiddum öll atkvæði gegn honum. Á nefndaráliti mínu sem fulltrúa flokksins í iðnaðarnefnd á þskj. 910 frá 136. þingi er einmitt tekið fram að samningurinn sé gjörsamlega óverjandi, m.a. vegna óafturkræfra náttúrufarsáhrifa sem reiknað sé með við framkvæmd hans og vegna þess að gengið sé lengra í sérstökum skattalegum undanþágum. Við lögðum fram tillögu um að hámarkið yrði 18% eins og (Forseti hringir.) gagnvart öðrum fyrirtækjum sem þá voru á Íslandi og álfyrirtækjunum á Grundarfirði og í Reyðarfirði.

Það er nauðsynlegt, frú forseti, að þetta komi fram svo við séum ekki bendluð við þennan samning frá 2009. (Gripið fram í.)