141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli á þeim leigusamningi sem hefur verið undirritaður af hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra vegna náttúruminjasýningar í Perlunni. Það kemur fram að samningurinn sé undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis. Ég átta mig alls ekki á því hvernig það ferli fer fram, samþykki Alþingis á samningnum.

Hér er verið að gera samning upp á 1.200 millj. kr. í leigugreiðslur. Hvernig á Alþingi að samþykkja hann? Ég get mér til um að það muni gerast með 6. gr. heimild í haust fyrir fjárlagaárið 2014. En það sem er merkilegt við það er að þá verður ríkissjóður búinn að setja 500 millj. kr. í kostnað við að setja upp sýninguna. Segjum sem svo að sá þingmeirihluti sem starfar hér í vor muni taka þá ákvörðun að skynsamlegra sé að nota þá peninga sem hér um ræðir, 1.200 millj. kr., á næstu árum til að efla löggæsluna, styrkja heilbrigðisþjónustuna eða annað, sem ég teldi bara mjög skynsamlegt að þingið mundi gera. Þá þyrfti að taka niður sýninguna og það mundi væntanlega kosta nokkur hundruð milljónir. Þá væri búið að henda úr ríkissjóði hundruðum milljóna út í loftið. Síðan er borgin líka að leggja í óhemjukostnað við að breyta húsnæðinu, auðvitað fyrir skattfé borgarbúa.

Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki hvernig á að fara með þessar framkvæmdir. Það er gerður samningur upp á 1.200 millj. kr. með fyrirvara um samþykki Alþingis en samt er skrifað undir hann. Ég átta mig ekki á hvernig þetta getur gerst. Ég bið hæstv. forseta að athuga sérstaklega hvort heimilt sé að gera þetta eins og hér er gert.