141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni fundarstjórn forseta þegar við ræddum um störf þingsins áðan. Það er hefð fyrir því að þingmenn geti spurt hver annan, beint fyrirspurn til annarra þingmanna og tryggt að viðkomandi þingmaður viti af því og geti brugðist við með viðeigandi hætti og það sé pláss fyrir viðkomandi hv. þingmann á mælendaskrá.

Nú bar svo við að hér var umræða um afstöðu eins af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins varðandi þróunarhjálp okkar Íslendinga. Ég hefði talið eðlilegra að fyrirspurninni hefði verið beint til þess þingmanns sem um var rætt þannig að þeim þingmanni hefði verið gefið tækifæri til að svara fyrir sig og sína stefnu og þær ástæður sem lágu að baki því að hann tók þá afstöðu sem hann gerði í þingsalnum. (Forseti hringir.) Mér er ekki kunnugt um að fylgt hafi atkvæðaskýring þegar þingmaðurinn greiddi atkvæði í þinginu (Forseti hringir.) þannig að við hæfi hefði verið að leyfa þingmanninum sjálfum að svara en ekki beina fyrirspurninni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar (Forseti hringir.) sem ekkert hafði um það mál að segja.