141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru tvö mál sem mig langar til að gera athugasemd við, en þó vil ég segja að hæstv. forseti Alþingis hefur staðið sig ágætlega að undanförnu. Það er í fyrsta lagi ótrúlegt að mál er snertir kísilver á landi Bakka skuli ekki vera tekið fram fyrir og rætt. Þetta er kannski eina málið sem getur eflt hagvöxtinn í landinu og við höfum séð að undanförnu á þeim tölum sem hafa birst að hann er töluvert minni en gert var ráð fyrir. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir Norðausturkjördæmi og er ágætissamstaða um það meðal þeirra þingmanna sem þar eru. Ég vil líka gagnrýna þau sjónarmið sem hafa komið fram um að þetta séu einhvers konar óeðlilegar ívilnanir en svo er ekki.

(Forseti hringir.) Ég vil taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Hæstv. forseti á að beina þeim fyrirspurnum sem hér koma að þeim þingmönnum (Forseti hringir.) sem málið snýst um en ekki að einhverjum óviðkomandi úti í sal.