141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja alls ekki hugsað mér að tala um fundarstjórn forseta þangað til ég hlustaði á ræðurnar sem fóru fram í morgun. Ég hef miklar áhyggjur af fundarstjórn forseta sem lýtur að röðun mála á dagskránni. Það er ekki hægt að túlka niðurstöðu umræðunnar í morgun öðruvísi en svo að mikil óvissa sé núna um það mál sem lýtur að uppbyggingunni á Bakka.

Ég hafði talið fyrir fram að mikill og ríkur þingvilji væri fyrir því að afgreiða þetta mál. En nú komu stjórnarliðarnir upp hverjir á fætur öðrum og töluðu mjög gegn því að beitt yrði nokkurs konar ívilnunum vegna uppbyggingar af þessu taginu, til dæmis hv. þm. Björn Valur Gíslason sem skrifar m.a. undir nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar í þessum efnum. Hann talaði þannig að ég er farinn að hafa dálitlar áhyggjur af því hvort málið muni ná fram að ganga.

Það skiptir mjög miklu máli að eyða þessari óvissu. Við vitum að það hefur áður gerst vegna pólitískrar óvissu að fyrirtæki hafi hrokkið undan, horfið frá því að fara í fjárfestingar. Þess vegna þurfum við að eyða óvissunni, (Forseti hringir.) bæði vegna þessa verkefnis sérstaklega og vegna hagsmunanna í Þingeyjarsýslu og ég hvet mjög til þess að við reynum (Forseti hringir.) að gera það með því að taka þetta mál á dagskrá.