141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:16]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa yfir fullum stuðningi við forseta í þeirri forgangsröðun sem kemur fram í dagskrá þingsins í dag og reyndar síðustu daga. Það er alveg morgunljóst að við þurfum bara að klára eitt mál í þinginu áður en við förum heim fyrir kosningar. Það er að virða þann þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október og tryggja framgang stjórnarskrármálsins yfir á næsta þing og að sjálfsögðu að samþykkja auðlindaákvæðið sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa ítrekað lýst yfir vilja til að samþykkja á síðustu vikum og síðustu mánuðum, allir flokkar, landsfundir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo ekki sé talað um okkur í stjórnarmeirihlutanum. Það er stórmálið sem við verðum að klára og okkur er ekkert að vanbúnaði. Við erum með auðlindaákvæði sem hefur verið 13 ár í mótun. Það er hápunkturinn á þróun sem hefur staðið allar götur frá árinu 2000 og kemur til móts við meginatriði í þeim ályktunum sem hafa komið fram frá öllum flokkum.