141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa yfir stuðningi við fundarstjórn forseta sem hefur yfirleitt verið án nokkurra athugasemda. Það er þó tvennt sem ég vil gera athugasemdir við eftir umræðuna í dag og annað lýtur að því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á. Þegar þingmenn beina fyrirspurnum um aðra þingmenn til þingmanna í allt öðrum flokkum tel ég að við séum komin á hálan ís og ég tel að það þurfi að ræða í forsætisnefnd. Ég mun óska eftir því og geri það hér með.

Varðandi þá umræðu sem hefur orðið um atvinnumál og mál nr. 19 og 20 á dagskránni sem varða Bakka tek ég undir að mikilvægt er að koma þeim á dagskrá. Varðandi þau ummæli sem hv. þm. Björn Valur Gíslason kom með held ég að mikilvægt sé að þau mál komist á dagskrá ef það þarf að ræða þau svona mikið. Í hinum vestræna heimi, og reyndar um allan heim, er það stórt vandamál að Starbucks og IKEA og önnur stórfyrirtæki heimsins komist undan skattgreiðslum. Það er vandamál sem hefur ekki verið tekið á í íslenskri stjórnsýslu, ekki síðastliðin fjögur ár heldur, og það getur verið gott tækifæri til að taka þá umræðu hér.