141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Til lúkningar umræðunni um fundarstjórn forseta er varðar fyrirspurnatímann áðan er alveg rétt að umræðan um þróunaraðstoð er tilfinningaþrungin umræða. Ég viðurkenni að mér mislíkaði mjög í gær þegar ég heyrði hv. þingmann tala, sem var rætt um í fréttunum í gær, um sín sjónarmið og mér fannst stórmál að þingmaður á Alþingi Íslendinga greiddi atkvæði gegn þeirri aðstoð, fullkomlega löggilt sjónarmið af hennar hálfu. Mér mislíkaði það mjög og vildi spyrja þingmenn út í stefnu þeirra flokka. Hins vegar þykir mér leitt að þingmanninum hafi ekki gefist tækifæri til að svara því aftur hér ef þingmaðurinn hafði áhuga á. Það var fullt svigrúm til að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum í atkvæðaskýringum í gær o.fl. enda stóð ekkert í vegi fyrir þingmanninum að fara í fréttirnar og gera ítarlega grein fyrir þeim sjónarmiðum í einum af fyrstu fréttum Stöðvar 2 í gær. Það var fullkomið (Forseti hringir.) tilefni til að ræða almennt um stefnu flokkanna í þróunarmálum í tilefni af því (Forseti hringir.) að þingmenn greiða atkvæði gegn því í þingsal.