141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki annað hægt en að koma aðeins inn á það sem hefur verið til umræðu hér á Alþingi í dag. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að í 48. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Þetta ákvæði er afar mikilvægt að mínu mati. Það þýðir að þeir sem hér sitja eiga að fylgja eigin sannfæringu eins og segir berum orðum í ákvæðinu en ekki að lúta einhverjum annarlegum sjónarmiðum. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að það að hér hafi stjórnarflokkarnir sýnt af sér eitthvert það mesta flokksræði sem um getur í sögu lýðveldisins kalli á breytingar á stjórnarskránni. Ég hef verið fylgjandi því að breyta stjórnarskránni, hef verið það frá upphafi og það er stefna Framsóknarflokksins. Ég vildi að við mundum halda áfram með breytingarnar og er enn þeirrar skoðunar. Það skiptir máli en ég er líka sannfærður um að við eigum að beina spurningum að þeim þingmönnum sem telja sig vera að fylgja sannfæringu sinni en ekki einhverra annarra. Ég hef aldrei notað þetta form hér til þess að spyrja félaga mína úr Framsóknarflokknum eða einhverja aðra úr stjórnarandstöðu út í til dæmis hvaða skoðanir Skúli Helgason hafi á Icesave-málinu. Það hvarflaði ekki að mér, ég spurði bara hv. þm. Skúla Helgason og virti hans skoðanir þó að ég teldi þær ganga nær hagsmunum Breta og Hollendinga heldur en hagsmunum Íslendinga.

Við erum að ræða tillögu frá nýskipuðum formönnum stjórnarflokkanna, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og formanni Bjartrar framtíðar hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Sú tillaga er allra góðra gjalda verð. Hún felst í því að þrátt fyrir 1. mgr. 79. gr. sé heimilt fram til 30. apríl 2017 að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem lýst er hér í tillögunni. Fram hafa komið breytingartillögur, meðal annars frá Pétri Blöndal um að tryggt verði að ekki þurfi, eins og hér er lagt til í tillögu formannanna, 3/5 hluta greiddra atkvæða til að samþykkja hér á Alþingi heldur að minnsta kosti 40 aðilar þurfi að samþykkja. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum þá tillögu.

Áðan var fullyrt, og ágætt að koma kannski inn á það áður en lengra er haldið, að stjórnarandstaðan væri komin í einhvers konar málþóf. Ég hafna því alfarið og vil benda á að fyrsta sólarhringinn þá töluðu eingöngu stjórnarliðar og þeir nýttu sér allar þær mínútur sem þeir höfðu til þess að fjalla um þetta mikilvæga mál, en óskað hefur verið eftir tvöföldum ræðutíma. Ég hefði reyndar talið að þetta væri ekki mikilvægasta málið heldur væri mun mikilvægara að ræða um stöðu heimilanna og það hvernig við ætlum að örva hagvöxt í landinu til þess að skapa fólki tekjur sem geta svo runnið inn í ríkissjóð og staðið undir velferðinni í landinu. Það er velferðin í landinu sem við þurfum að standa vörð um. Dapurlegt er til þess að hugsa að ríkisstjórnin sem taldi sig vera einhvers konar norræna velferðarstjórn skuli skilja það eftir sig að okkar stærstu verkefni eru einmitt að bæta velferðina í landinu vegna þess að í hana hafa verið höggvin risastór skörð eins og landsmenn allir vita, með gríðarlegum niðurskurði í heilbrigðismálum sem er vandamál á Landspítalanum.

Þess vegna hefði ég talið fullkomlega eðlilegt að ræða þá tillögu sem hér hefur komið fram. Það sem flækir hins vegar málið og ég er ekki viss um að landsmenn allir hafi áttað sig á er að það er ekki bara þessi tillaga formannanna þriggja sem er hér til umræðu. Þingflokksformenn stjórnarflokkanna lögðu fram breytingartillögu við hið svokallaða auðlindaákvæði. Það er ákvæði sem ég hef verið reiðubúinn að setja inn í stjórnarskrána, ég tel það afar mikilvægt og það hefur verið á stefnu Framsóknarflokksins. Reynt er að snúa því þannig að við séum á einhvern hátt að hlaupast undan merkjum, en svo er ekki. Við höfum ekki verið reiðubúin til að taka inn þessa tillögu því hún virðist ekkert sérstaklega hafa verið rædd og gengur í rauninni í berhögg við þá tillögu sem formennirnir þrír komu með. Staðreynd er að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki fjallað nægilega vel um hana, að mínu mati.

Það sem gerði svo að verkum að við þurfum að ræða stjórnarskrána ítarlega er breytingartillaga sem kom frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Ég stóð í þeirri meiningu að í henni væri sú stjórnarskrá sem stjórnlagaráðið hefði skilað af sér og taldi að þar væri komin óbreytt sú tillaga vegna þess að Hreyfingin hefur talið og rætt oft hér í ræðustól Alþingis að það væri ekki okkar hlutverk að skipta okkur af þeirri afurð sem kæmi frá stjórnlagaráðinu. Það er reyndar þvert á þau skilyrði sem við settum fyrir því að stjórnlagaráð yrði sett á laggirnar eftir að Hæstiréttur úrskurðaði um að kosningin til stjórnlagaþings væri ógild.

Ég hef tekið eftir því að í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur þá er ákvæðið um náttúruauðlindir ekki í samræmi við þá tillögu sem kom frá stjórnlagaráðinu, eftir því sem ég best fæ séð. Hún er nánast orðrétt eftir þeirri tillögu sem kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þá verð ég að viðurkenna að mér er vandi á höndum vegna þess að þá er í fyrsta lagi þingmaður Hreyfingarinnar að ganga gegn þeirri sannfæringu sinni sem hann hefur lýst hér yfir að ekki megi breyta þeirri tillögu. Í annan stað þá tel ég afar mikilvægt að ef menn ætla að breyta tillögum stjórnlagaráðs þá sé það að minnsta kosti rætt í þaula.

Margt ágætt er í þessari breytingartillögu frá hv. þingmönnum Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni, en það er þó ein setning sem ég vil gera hér að umtalsefni, virðulegi forseti:

„Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“

Þessi eina setning breytir því fyrirkomulagi sem hefur verið hér á Íslandi í tugi ára, allt frá því að stjórnarskráin var fyrst sett árið 1874 ef ég man rétt. Hæstiréttur hefur mótað dómaframkvæmd þar sem menn geta séð öll þau ágreiningsmál sem hafa sprottið af núgildandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og fjölmargir áhugaverðir dómar hafa fallið. Ef við ákveðum að takmarka megi með lögum ákvæði stjórnarskrárinnar sisvona þá held ég að við séum að ganga ansi langt í því að rýra þann mikilvæga eignarrétt sem ekki bara er stjórnarskrárbundinn heldur líka festur í mannréttindasáttmála Evrópu. Það sem einkennir mannréttindaákvæði almennt er að takmarkanir á þeim verða að vera það stórar og það veigamiklar fyrir samfélagið í heild sinni að það sé réttlætanlegt að gera þær.

Hér er í rauninni veitt heimild til að hverjir sem eiga sæti í ríkisstjórn geta ákveðið, einhver meiri hluti, að afnema þennan eignarrétt á einu bretti. Haft hann þess vegna einn metra niður í jörðina. Nú er verið að bora eftir heitu vatni hundruð ef ekki þúsundir metra til þess að sækja það. Það er ágætt að taka þessa umræðu. Ég er alveg sammála því að einhvers staðar verða mörkin að liggja en að mínu mati er ekki hægt að henda því fram á Alþingi þegar venjulegri dagskrá ætti í rauninni að vera lokið. Þar komum við aftur að því mikilvæga skilyrði sem var sett hér á Alþingi fyrir því að stjórnlagaráð yrði sett á laggirnar og það var að á Alþingi yrði tekin efnisleg umræða um þær tillögur sem frá þessu ágæta fólki kæmu. Margar þeirra eru mjög áhugaverðar og margar get ég tekið undir, aðrar ekki.

Það sem mér sveið var að Hreyfingin virtist hafa ákveðið að verja núverandi ríkisstjórn vantrausti, hún naut ekki meiri hluta úr eigin stjórnarflokkum, gegn því að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sagði á þeim tíma að þá væri verið að stíga skref aftur á bak en ekki áfram vegna þess að það gæfi alltaf skakka mynd af því hver raunveruleg afstaða þjóðarinnar væri til einstakra ákvæða ef við ætluðum bara að spyrja hana til dæmis hvort hún vildi nýju eða gömlu. Hvor stjórnarskráin viltu að lögð sé til grundvallar? Ég er viss um að ef fólk hefði sagt: Við viljum að núverandi stjórnarskrá verði lögð til grundvallar. Þá hefði fólk ekki verið að segja að henni mætti ekki breyta. Þá hefði fólk kannski sagt að hana mætti laga.

Ég taldi líka að jafnvel þó að fólk yrði spurt að því hvort það vildi ákvæði um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá þá væri kannski ekki algjörlega úr því skorið hvernig auðlindaákvæði þjóðin vildi sjá og ekki kæmi fram hvaða marki það auðlindaákvæði ætti að ná. Við höfum jú eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ég veit ekki betur en að menn vilji almennt standa vörð um það ákvæði. Ég vona svo sannarlega að við náum að ljúka fundum Alþingis núna á næstu dögum og ég vona að umræðan um stjórnarskrána tæmist. Ég vil líka segja að ég vona að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir dragi tillögu sína til baka vegna þess að ég held að það sé miklu meira vit í því að við höfum eingöngu til umræðu tillögu frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni án þess að blanda tillögu að nýrri stjórnarskrá frá stjórnlagaráði í málið, þótt hún sé með einhverjum breytingum héðan af Alþingi. Eins og ég hef sagt í ræðunni, ef menn vilja fara í að breyta þá eiga menn að gera það.

Ég get sagt svona til gamans að í þeirri breytingartillögu þá er stafsetningarvilla, að ég held. Hér segir í tillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, með leyfi forseta:

„Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær, vatn, þó að gættum lögbundnum réttindum annarra til hagnýtingar og ráðstöfunar þess, og auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum.“

Munurinn felst í orðinu „gættum“. Í breytingartillögu frá hv. þingmönnum segir: „að bættum lögbundnum réttindum annarra.“

Því miður eru breytingar á stjórnarskránni þannig að þó að ég telji þetta vera stafsetningarvillu þá hefur hún merkingarmun í för með sér og getur skipt máli vegna þess að hvert einasta orð í þessum tillögum skiptir máli. Við erum að tala um stjórnarskrá okkar, þau grundvallarlög sem móta samfélag okkar og við verðum að gefa okkur tíma til þess að fara yfir og vita hvort raunverulega sé verið að breyta meiningu með einstökum orðum eða hvort hér sé eingöngu um stafsetningarvillu að ræða.

Virðulegi forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu af hverju við sitjum enn í þingsal og stöndum í ræðupúlti og ræðum stjórnarskrána, hvort það sé óeðlilegt. Í ljósi þess að nú hafa stjórnarliðar rætt ítarlega um þær tillögur sem liggja á borðinu þá tel ég afar eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni fáum tækifæri til þess líka. Ég mundi glaður vilja fá fram afstöðu stjórnarþingmanna til þess hvort einhugur sé í þeirra röðum um að samþykkja þær breytingartillögur sem hér eru komnar fram.

Nú er afar mikilvægt mál á dagskrá sem snýr að uppbyggingu Bakka á Húsavík. Það væri líka gaman að heyra hvort einhugur sé í þingflokkunum um að setja það mál á dagskrá vegna þess að mér fannst umræðan í dag gefa til kynna að blendnar skoðanir væru á því. Það er ekki í fyrsta skipti sem þingflokkar klofna í einstökum málum, jafnvel þó að fyrrverandi formaður annars stjórnarflokksins leggi fram tillöguna og má eiga það að hafa staðið sig ágætlega í að koma þessu máli á dagskrá. Góð samstaða hefur verið að undanförnu. Það hefur reyndar ekki verið áður um uppbyggingu á þessu svæði en gott að það komi fram að batnandi mönnum er best að lifa. Ástæðulaust er að gagnrýna það góða sem kemur frá núverandi stjórnvöldum þó að ég telji afar brýnt að komast í kosningabaráttu, fá kosningar og skipta um ríkisstjórn.